Skoðunarferðir í boði í Búdapest

Borgarferð

Í þessari skoðunarferð heimsækjum við helstu kennileiti borgarinnar. Má þar nefna Heroes Square, borgargarðinn, Széchenyi jarðhitaböðin og Vajdahunyai kastala. Við ferðumst eftir Andrássy breiðgötunni sem er á heimsminjaskrá Unesco, förum framhjá House of Terror og óperuhúsinu og þegar við komum niður í bæ skoðum við Gresham höllina, Keðjubrúna og Þinghúsið. Síðan förum við yfir Margrétarbrúna sem liggur yfir Danube ána en frá henni sjáum við Margrétareyju og fleiri brýr yfir ána. Við munum skoða Tyrknensku böðin í Buda-hluta borgarinnar og kastalasvæðið, þar á meðal Matthíasarkirkju, Fisherman's Bastion og Konungshöllina. Við endum ferðina við Gellért hæð og njótum þar stórfenglegs útsýnis yfir borgina.

Innifalið: Rúta, aðgangur að óperuhúsinu og fararstjóri.
Lengd: 4-5 tímar

Balaton vatn

Balaton vatn er með þeim stærri í Evrópu og afar vinsæll sumardvalarstaður þar sem vatnshitinn er eins og á sólarströnd. Allt í kringum vatnið eru fallegir litlir bæir og þorp eins og Tihany þorpið sem liggur á höfða sem nær út frá vatninu og uppá á hæð með frábæru útsýni yfir vatnið. Þorpið er frá tíma Andrew II konungs sem ákvað að meðlimir konungsfjölskyldunnar yrðu grafnir þar. Þar munum við heimsækja klaustur þar sem munkar Benedictine reglunnar eru taldir hafa verið fyrstir til að skrifa á ungversku og einnig skoðum við húskosti fiskimanna. Næst förum við til Balatonfüred og göngum um bæinn en þar stendur okkur til boða að smakka vatn úr brunni, sem samkvæmt sögunum, hefur lækningamátt. Sé áhugi fyrir því er mögulegt að heimsækja Herend postulíns verksmiðjuna sem er sú stærsta í heimi og hefur starfað frá árinu 1826 eða Badacsony vínræktarsvæðið í hlíðum eldfjallsins fyrir ofan vatnið. Í ferðinni er þriggja rétta málsverður þar sem við gæðum okkur á fiski úr Balaton vatninu.

Innifalið: Rúta, hádegisverður, aðgangur að klaustrinu í Tihany og fararstjóri.
Lengd: Dagsferð

Szentendre og listirnar

Ein vinsælasta skoðunarferðin frá Budapest er til bæjarins Szentendre sem er þekktastur fyrir hinn mikla fjölda af menningar- og listasöfnum sem gera heimsóknina sannarlega þess virði. Á undanförnum 150 árum hefur bærinn orðið einskonar griðarstaður fyrir listamenn sem vildu komast úr ys og þys stórborganna og myndast samfélag listskapara, mikið er af smáum sýningarsölum og vinnustofum þeirra sem setja skemmtilegan svip á bæinn. Gamli hlutinn hefur verið sérlega vel varðveittur og því göngutúr um bæinn langbesta leiðin til að upplifa þennan töfrandi heim. Í Szentendre eru glæsilegar byggingar eins og kirkjur, kapellur og aðrar menningarminjar hvert sem litið er.  Þessi fallegi bær er eins og klipptur út úr ævintýri.

Innifalið: Rúta, hádegisverður og fararstjóri.
Lengd: 4-5 tímar

Sigling um Danube ána

Í þessari ferð siglum við hina fallegu Danube á sem skiptir borginni í tvennt og eigum notalega stund á meðan við njótum lifandi tónlistar og snæðum kvöld- eða hádegisverð, eftir því hvenær dags er farið.

Innifalið: Rúta, bátsferð, hádegisverður/kvöldverður og fararstjóri.
Lengd: 1½ - 2 tímar

Sveitir og héruð - „Danube Beygjan“

„Danube Beygjan“ er landssvæði þar sem Danube áin tekur 90° beygju og heldur áfram að renna frá norðri til suðurs. Okkar fyrsti áfangastaður er bærinn Esztergom sem áður fyrr var konunglegt aðsetur og núverandi aðsetur kaþólsku kirkjunnar. Við skoðum m.a. St. Stephens dómkirkjuna sem er stærsta kirkja Ungverjalands. Næsti sögulegi bærinn sem við heimsækjum er Visegrád sem var einnig fyrrum konunglegt aðsetur, þar skoðum við rústir miðaldakasta á nálægri hæð og bæinn. Frá hæðinni höfum við gott útsýni yfir svæðið þar Danube áin beygir. Við endum ferðina á að fara til bæjarins Szentendre sem er þekktastur fyrir mikinn fjölda menningar- og listasafna. Hér gefst frábært tækifæri til að versla ungverska handverksmuni og minjagripi.

Innifalið: Rúta, fararstjóri og hádegisverður.
Lengd: Dagsferð

Gödöllő höll 

Skammt frá Búdapest er Gödöllő höllin sem var hönnuð í barokk-stílnum og þykir glæsilegt dæmi um ungverskan arkitektúr en hún er sú næststærsta sinnar gerðar í heiminum. Í höllinni kynnumst við sögu hennar og byrjum þar á Grassalkovich fjölskyldunni, sem var auðug yfirstéttafjölskylda sem byggði höllina á 18 öld. Í seinni hluta skoðunarferðarinnar kynnumst við lífi Elisabeth sem var austurísk keisaraynja og drottning Ungverjalands en höllin var sumaraðsetur hennar og Franz Joseph eiginmanns hennar, konungs Ungverjalands og keisara Austurríkis. Eftir að við höfum skoðað sjálfa höllina endum við ferðina á að skoða hallargarðinn. 

Innifalið: Rúta, fararstjóri og aðgangur að höllinni.
Lengd ferðar: Hálfur dagur

Bóka verður með 10 daga fyrirvara áður en farið er frá Íslandi. Greitt er fyrir skoðunarferðir áður en lagt er af stað frá Íslandi.

Ferðaskrifstofan áskilur sér rétt til að fella niður ferðir ef lágmarksþátttaka næst ekki.