Dagur 1 - 12. Júní
Áfangastaðir | Riga, Lettland
Ferðin hefst á flugi með íslenska fararstjóranum okkar frá Keflavík klukkan 00:30 til Riga í Lettlandi þar sem við lendum klukkan 07:05 á staðartíma. Við verðum sótt á flugvöllinn og keyrð upp á Tallink Hotel Riga, frjáls dagur eftir það.
Dagur 2 - 13. Júní
Áfangastaðir | Tirana, Albanía | Dajti, Albanía
Dagurinn hefst á flugi frá Riga klukkan 00:15 og lendum við í borginni Tirana klukkan 01:55. Eftir að við höfum sótt farangurinn erum við keyrð á hótelið okkar. Dagskráin heft aftur um morguninn með heimsókn á þjóðminjasafnið í Tirana þar sem við getum skoðað okkur um áður en við förum á Scanderbeg Square torgið og til Blloku hverfisins að skoða heimili fyrrum ráðamanna Sovétríkjanna í Albaníu. Einnig munum við keyra í átt að fjallinu Dajti og heimsækja BunkArt safnið sem geymir fróðleik og ýmsa muni frá hinum albanska armi kommúnistastjórnarinnar. Á leiðinni aftur til Tirana komum við einnig við á safninu World Center of Bektashi.
Við endum daginn í Tirana þar sem við borðum saman kvöldverð og gistum yfir nótt.
Dagur 3 - 14. Júní
Áfangastaðir | Krujë, Albanía | Lezha, Albanía | Shkodër, Albanía | Tirana, Albanía
Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu okkar. Áfangastaður okkar þennan daginn er Krujë, fallegur smábær sem situr á hæð. Þessi bær á sér merka sögu og var í aðalhlutverki þegar Albanir stóðu í vegi fyrir að Ottóman-veldið næði að herja á vesturhluta Evrópu. Þjóðhetjan Skanderbeg leiddi Albani í þessum hernaði og var fyrir vikið útnefndur sérstakur verndari Kristinnar trúar af þáverandi páfa. Við munum heimsækja Krujë kastalann og Skanderbeg safnið, eitt frægasta safn landsins, áður en lengra er haldið með stuttri heimsókn til útimarkaðar þar.
Í hádeginu borðum við síðan saman albanska rétti á veitingastaðnum Rapsodia í bænum Lezha og eigum notalega stund.
Við endum dagskrá dagsins með heimsókn til bæjarins Shkodër, sem á sér rúmlega 2,200 ára langa skráða sögu. Við komum til með að heimsækja Rozafa kastalann og njóta hins stórfenglega útsýnis þar og einnig Marubi National Museum of Photography þar sem við skoðum einstakt safn af ljósmyndum frá daglegu lífi heimamanna frá fyrri hluta 19. aldar til loka hennar. Við förum í gönguferð um hina nýlega endurbyggðu göngugötu bæjarins og virðum fyrir okkur arkitektúr frá Ítalíu og Austurríki sem er vitnisburður um tengsl þeirra landa við Albaníu áður fyrr.
Í lok dags keyrum við aftur til Tirana þar sem við borðum saman kvöldverð og gistum.
Dagur 4 - 15. Júní
Áfangastaðir | Ardenica Monastery, Albanía | Apollonia, Albanía | Radhimë [Vlorë], Albanía
Að loknum morgunverði höldum við til bæjarins Vlorë þar sem Albanir lýstu yfir sjálfstæði sínu. Á leiðinni munum við heimsækja Ardenica klaustrið sem var reist á miðöldum. Í kirkjunni er að finna helgimyndir eftir albanska listamenn eins og Athanas Zografi og Kostandin Shpataraku. Þjóðsagan segir að þjóðhetja Albaníu, Gjergj Kastrioti eða Skanderbeg, hafi gift sig í kirkjunni árið 1451.
Okkar næsti áfangastaður er hin forna borg Apollonia sem var upphaflega stofnuð af Grikkjum sem komu frá Corinth í Grikklandi um 600 árum fyrir Krist. Hún var þegar orðin stórborg á tímum Grikkja með um 50 þúsund íbúa og síðar meir undir stjórn Rómarveldis varð hún enn mikilvægari sökum nálægðar hennar við helstu vegi stórveldisins. Rómverski keisarinn Augustus Octavius stundaði nám í borginni um tíma.
Við skoðum fornleifar svæðisins og safnið þar áður en við keyrum til Radhimë sem er einskonar úthverfi Vlorë þar sem við borðum saman kvöldverð og gistum.
Dagur 5 - 16. Júní
Áfangastaðir | Radhimë [Vlorë], Albanía
Þennan daginn gefst frjáls tími til að njóta þess sem Radhimë og Vlorë hafa upp á að bjóða. Fallegar strendurnar þar sem tilvalið er að fara í sólbað, kristaltær sjórinn, jafnvel kajaksiglingar fyrir þá sem það vilja.
Við hittumst síðan um kvöldið og borðum saman kvöldverð, við gistum áfram í Radhimë.
Dagur 6 - 17. Júní
Áfangastaðir | Llogara Pass, Albanía | Ali Pasha Castle, Albanía | Sarandë, Albanía
Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu okkar og ferðumst síðan meðfram sjónum til borgarinnar Sarandë og á leið okkar þangað ökum við eftir tilkomumikilli fjallaleið í yfir 1,000 metra hæð yfir sjávarmáli. Við munum sjá Llogara skarð á leiðinni og njótum fallegs útsýnis sem blasir við okkur þaðan.
Við munum heimsækja Ali Pasha kastalann sem stendur við höfn Porto Palermo flóans áður en við endum dagskrá dagsins í Sarandë þar sem við borðum saman kvöldverð og gistum.
Dagur 7 - 18. Júní
Áfangastaðir | Butrint, Albanía | Ksamil Beach, Albanía | Sarandë, Albanía
Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu okkar áður en við förum til hinnar fornu borgar, Butrint, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Þessi dagur verður hálfgert ferðalag til fortíðar og Butrint hápunktur hans. Á tímum forn-Grikkja var borgin grísk nýlenda en yfir aldirnar girntust hana hin ýmsu ríki, þar á meðal Rómverjar eins og rannsóknir fornleifafræðinga á svæðinu hafa leitt í ljós. Borgin var staðsett úti á nesi, umlukin framandi og litríkri náttúru.
Eftir heimsóknina til Butrint keyrum við til Ksamil strandarinnar þar sem við borðum saman hádegisverð og síðan er frjáls tími á ströndinni.
Við endum daginn aftur í Sarandë þar sem við borðum saman kvöldverð og gistum.
Dagur 8 - 19. Júní
Áfangastaðir | The Blue Eye, Albanía | Gjirokastër, Albanía | Berat, Albanía
Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu okkar. Við setjum stefnuna á bæinn Gjirokastër, fallegur bær sem er á heimsminjaskrá UNESCO og þekkt fyrir sérstakar byggingar. Í raun er bærinn eitt stórt safn af virkilega vel varðveittum, fögrum og sérstökum byggingum í arkitektúr Tyrkjaveldis eða Ottóman-veldisins. Yfir bænum stendur kastalavirki sem við munum heimsækja og þar finnum við vel útbúið vopnasafn, meðal annars vopn frá fyrri heimsstyrjöldinni. Þessi kastali geymir ekki einungis vopnasafnið því fimmta hvert ár er haldið landsmót tileinkað þjóðlagatónlist og dansi. Við borðum saman hádegisverð í Gjirokastër.
Á leið okkar til Gjirokastër munum við heimsækja náttúrufyrirbærið Bláa Augað eða “The Blue Eye”. Þetta vatnsból er þekkt fyrir hið kristaltæra vatn sem kemur upp þar.
Við endum daginn í borginni Berat þar sem við borðum saman kvöldverð og gistum.
Dagur 9 - 20. Júní
Áfangastaðir | Berat, Albanía
Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu okkar áður en við förum í skoðunarferð um eina fegurstu borg Albaníu, Berat. Borgin er ein fjölmargra perla sem Ottóman-veldið skildi eftir sig og áhrif Ottóman-veldisins má sjá víða, meðal annars í því hversu margar moskur eru í borginni. Borgin hefur oft verið kölluð "The Town of a Thousand Windows" eða Þúsund-glugga Borgin, kemur nafnið til vegna hinna hvítkölkuðu húsa með glugga sem virðast nánast hafa verið byggðir hver ofan á annan. Hér sjáum við mjög spennandi samsuðu hinna ýmsu menningarheima í einni og sömu borginni.
Við munum einnig heimsækja kastala borgarinnar sem gnæfir yfir henni. Kastalinn er ansi merkilegur fyrir margt en kannski einna helst vegna þess að íbúar þar búa enn í sömu húsum og forfeður þeirra gerðu áður fyrr. Innan virkisveggja kastalans voru margar kirkjur og sjö þeirra standa enn, þar af hefur einni þeirra verið breytt í safn sem hýsir verk eftir listamanninn Onufri sem var uppi á 16. öld. Hann skapaði fjöldan allan af veggmyndum og líkneskja sem má finna í kirkjum víðsvegar bæði í Albaníu og Grikklandi.
Við endum daginn á kvöldverði saman áður en við förum aftur á hótelið okkar í Berat.
Dagur 10 - 21. Júní
Áfangastaðir | Pogradec, Albanía | Lake Ohrid, Albanía | Tuhemisht, Albanía
Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu okkar. Þennan daginn höldum við til borganna Pogradec og Elbasan auk vatnsins Ohrid. Einnig munum við skoða okkur um í Driloni þjóðgarðinum. Á ferðalagi okkar þennan daginn sjáum við mörg spennandi og þjóðleg þorp, til dæmis Belshi og Tushemisht þar sem við kynnum okkur líf og umhverfi íbúanna.
Seinni hluti dagsins er frjáls tími við fyrrnefnt stöðuvatn þar sem er tilvalið að eiga notalega og afslappaða stund áður en við endum daginn með kvöldverði saman í Pogradec þar sem við gistum.
Dagur 11 - 22. Júní
Áfangastaðir | Lin, Albanía | Elbasan Castle, Albanía | Tirana, Albanía
Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu okkar áður en við keyrum af stað til Tirana. Á leið okkar þangað munum við heimsækja þorpið Lin sem geymir rústir kirkju frá tímum Austrómverska Keisaradæmisins áður en við stöldrum við í Elbasan kastalanum í kaffibolla.
Þegar komið er til Tirana heimsækjum við safn tileinkað sögu kommúnisma í landinu.
Endum daginn á kvöldverði saman, við gistum í Tirana.
Dagur 12 - 23. Júní
Áfangastaðir | Tirana, Albanía | Riga, Lettland
Flugið okkar frá Tirana til Riga er klukkan 02:35 og lendum við í Riga klukkan 06:15 að staðartíma. Frjáls dagur í Riga. Við gistum á Tallink Hotel Riga.
Dagur 13 - 24. Júní
Áfangastaðir | Riga, Lettland
Frjáls dagur í Riga. Við gistum á Tallink Hotel Riga.
Dagur 14 - 25. Júní
Áfangastaðir | Keflavík, Ísland
Flugið okkar frá Riga er klukkan 22:45 og við lendum heima á Íslandi klukkan 23:40 að staðartíma.