Ferðaáætlun

Dagur 1 - 2. Júní
Áfangastaðir: Riga, Lettland
Ferðin hefst á flugi með íslenska fararstjóranum okkar frá Keflavík kl. 00:30 til Riga í Lettlandi þar sem við lendum kl. 07:05 á staðartíma. Frá flugvellinum förum við upp á hótelið okkar, Tallink Hotel Riga.

Dagur 2 - 3. Júní
Áfangastaðir: Dubrovnik, Króatía | Trebinje, Bosnía og Hersegóvina
Annar dagurinn hefst með flugi klukkan 09:40 til Dubrovnik í Króatíu þar sem við lendum klukkan 11:15 að staðartíma. Þar mun innlendi fararstjórinn sem verður með í för þann tíma sem við ferðumst um Balkanskagann taka á móti okkur á flugvellinum og keyra með okkur til borgarinnar Trebinje í Bosníu & Hersegóvinu.

Við förum fótgangandi með innlenda fararstjóranum í skoðunarferð um borgina og endum daginn á kvöldverði saman áður en haldið er á hótelið okkar, Hotel Central Park Trebinje.

Dagur 3 - 4. Júní
Áfangastaðir: Trebinje, Bosnía og Hersegóvina | Tvrdoš Monastery, Bosnía og Hersegóvina | Blagaj, Bosnía og Hersegóvina | Mostar, Bosnía og Hersegóvina
Hefjum daginn á morgunverði áður en við setjum stefnuna á Tvrdoš klaustrið frá 15. öld sem er þekktast fyrir að framleiða vín úr Žilavka og Vranac þrúgunum sem vaxa á svæðinu og okkur býðst að prufa í vínsmökkun. Næst höldum við til borgarinnar Mostar og á leið okkar munum við heimsækja bæinn Blagaj sem situr við hlið risavaxins bergs og ánnar Buna. Klaustrið sem við munum heimækja þar hefur staðið síðan á 6. öld og munum við fræðast um sögu þess.

Við endum daginn á kvöldverði í Mostar áður en við höldum á hótelið okkar, Hotel Kriva Cuprija.

Dagur 4 - 5. Júní
Áfangastaðir: Mostar, Bosnía og Hersegóvina
Við hefjum daginn á morgunverði á hótelinu okkar. Þennan daginn förum við fótgangandi í skoðunarferð um Mostar og kynnum okkur sögu borgarinnar, hluta hennar sem er á Heimsminjaskrá UNESCO og njótum þess sem borgin hefur upp á að bjóða. Hún er þekkt fyrir hrífandi arkitektúr, ríka sögu, framandi matargerð, góð vín, sól og fallega náttúru auk þess sem hún er talin ein af rómantískustu borgum heimsins.

Frjáls tími seinni hluta dagsins þar til við hittumst aftur um kvöldið og snæðum saman kvöldverð áður en dagurinn endar á hóteli okkar, Hotel Kriva Cuprija.

Dagur 5 - 6. Júní
Áfangastaðir: Sarajevo, Bosnía og Hersegóvina
Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu. Næsti áfangastaður er Sarajevo, höfuðborg Bosníu og Hersegóvinu. Á leiðinni munum við heimsækja einn best varðveitta leyndardóm landsins sem eitt sinn bar nafnið Júgóslavía - kjarnorkubyrgi fyrrum einræðisherrans Josip Broz Tito. Byrgið var byggt til að tryggja öryggi Tito og um ~350 mikilvægustu undir- og samverkamanna hans.

Við endum daginn á kvöldverði saman í Sarajevo áður en við förum á hótelið okkar, Hotel Europe Sarajevo.

Dagur 6 - 7. Júní
Áfangastaðir: Sarajevo, Bosnía og Hersegóvina

Dagurinn hefst á skoðunarferð um Sarajevo þar sem við kynnum okkur sögu hennar og óhefðbundinn byggingarstíl, hér má meðal annars finna íslamskan miðaldararkitektúr sem og austurrískan. Borgin spilaði stórt hlutverk í sögu 20. aldar í Evrópu þegar erkihertoginn Franz Ferdinand var myrtur hér árið 1914.

Seinni hluta dagsins er frjáls tími þar til við hittumst aftur um kvöldið og borðum saman kvöldverð á veitingastað sem sérhæfir sig í hefðbundinni matargerð áður en við endum á hóteli okkar, Hotel Europe Sarajevo.

Dagur 7 - 8. Júní
Áfangastaðir: Višegrad, Bosnía og Hersegóvina | Zlatibor, Serbía
Frá Sarajevo förum við til Višegrad en þekktasta kennileiti bæjarins er Mehmed Paša Sokolović brúin frá 16. öld. Brúin var í aðalhlutverki í ritverki Ivo Andrić, The Bridge on the Drina. Einnig heimsækjum við hverfið Andrićgrad sem hefur haldið útliti sínu sérlega vel frá fyrri öldum og er nánast eins og gestir ferðist aftur í tíma á göngu sinni um bæinn.

Að loknum þessum heimsóknum förum við í siglingu um Drina ána og hið samnefnda gljúfur þar sem við njótum náttúrufegurðarinnar á leiðinni til þjóðgarðsins Perućac. Við endum daginn á því að keyra til bæjarins Zlatibor þar sem við borðum saman kvöldverð og gistum á Grand & Sky Hotel Tornik.

Dagur 8 - 9. Júní
Áfangastaðir: Sirogojno, Serbía - Zlatibor, Serbía

Við byrjum daginn á morgunverði áður en við ferðumst til þorpsins Sirogojno þar sem við sjáum þjóðlegan arkitektúrinn sem einkennir þorpið. Stór hluti þorpsins er undir verndarvæng ríkisstjórnarinnar þar sem hann er einstakt dæmi um þjóðlegan byggingarstíl. Í heimsókn okkar til Sirogojno fáum við tækifæri til að kynnast lífsstíl Serba á 18. og 19. öld. Þorpið er þekkt fyrir ríka sögu hannyrða, kynslóðir kvenna í þorpinu hafa prjónað einstakar peysur sem sjá má hér. Við stöldrum við og fáum kynningu á því sem þær skapa.

Við endum dagskrá dagsins á þjóðlegum hádegisverði og síðan gefst frjáls tími það sem eftir lifir dags. Við gistum áfram á Grand & Sky Hotel Tornik í Zlatibor.

Dagur 9 - 10. Júní
Áfangastaðir: Podgorica, Svartfjallaland
Að loknum morgunverði byrjum við daginn á að heimsækja Mileševa klaustrið sem hýsir margar mikilvægustu minjar menningararfleifðar landsins þar sem við skoðum klaustrið og listmunina sem þar eru geymdir. Ein frægasta freska þjóðarinnar er hér, The White Angel sem er frá 13. öld, auk fleiri gersema. Eftir að hafa skoðað okkur um höldum við til höfuðborgarinnar, Podgorica, þar sem við borðum saman kvöldverð og gistum á Hotel CUE Podgorica, The Capital Plaza.

Dagur 10 - 11. Júní
Áfangastaðir: Cetinje, Svartfjallaland | Kotor, Svartfjallaland | Lopud, Króatía
Við byrjum á morgunverði á hótelinu. Þessi dagur er tileinkaður Svartfjallalandi og Cetinje sem var höfuðborg landsins til ársins 1916 þegar að Podgorica tók við því hlutverki. Hér heimsækjum við klaustur, listasafn og höll Nikola konungs.

Næst keyrum við eina mest spennandi fjallavegi Evrópu og ferðumst með kláf niður fjallshlíðina að ströndinni á leið okkar til miðaldabæjarins Kotor sem liggur við Adríahaf og er á heimsminjaskrá UNESCO þar sem við förum í skoðunarferð.

Við endum síðan daginn í Lopud, Króatíu, þar sem við borðum saman kvöldverð og gistum á Lafodia Hotel.

Dagur 11 - 12. Júní
Áfangastaðir: Dubrovnik, Króatía | Lopud, Króatía
Hefjum dagskrá dagsins með morgunverði á hótelinu áður en haldið er til Dubrovnik, Króatíu. Við komu förum við saman í skoðunarferð um borgina, kynnum okkur þann hluta sem er á Heimsminjaskrá UNESCO og síðan er frjáls tími það sem eftir lifir dags þar til við snúum aftur til Lopud, borðum saman kvöldverð og endum daginn á hóteli okkar, Lafodia Hotel.

Dagur 12 - 13. Júní
Áfangastaðir: Dubrovnik, Króatía | Lopud, Króatía
Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu áður en haldið er aftur til Dubrovnik, Króatíu. Við förum saman í aðra skoðunarferð um borgina og síðan er frjáls tími það sem eftir lifir dags þar til við snúum aftur til Lopud, borðum saman kvöldverð og endum daginn á hóteli okkar, Lafodia Hotel.

Dagur 13 - 14. Júní
Áfangastaðir: Riga, Lettland
Dagurinn hefst á morgunverði áður en haldið er út á flugvöll þaðan sem við fljúgum frá Dubrovnik klukkan 09:55 á staðartíma og áætluð lending í Riga er klukkan 13:30 á staðartíma. Riga er afskaplega falleg borg og margt spennandi að sjá hér, til dæmis eitt stærsta samansafn af Art Noveau og Jugend byggingalist. Gamli bærinn í Riga er á heimsminjaskrá UNESCO og auðvelt fyrir gangandi vegfarendur að komast leiðar sinnar þar. Hér eigum við frjálsan dag og gistum á Tallink Hotel Riga.

Dagur 14 - 15. Júní
Áfangastaðir: Keflavík, Ísland
Dagurinn hefst á morgunverði áður en haldið er út á flugvöll þaðan sem við fljúgum frá Riga klukkan 22:45 á staðartíma og áætluð lending í Keflavík er klukkan 23:40 á staðartíma.