Ferðaáætlun

Dagur 1 | 6. September

Við fljúgum til Riga í Lettlandi klukkan 12:30 og lendum þar klukkan 19:05 að staðartíma. Áframhaldandi flug til Tbilisi í Georgíu frá Riga er síðan klukkan 23:20 að staðartíma og áætluð lending í Georgíu klukkan 04:40 að staðartíma daginn eftir.

Dagur 2 | 7. September

Áætluð lending í Tbilisi er klukkan 04:40 að staðartíma. Við verðum sótt á flugvöll og keyrð upp á hótel þar sem við getum hvílst.

Um hádegisbilið erum við síðan sótt og förum í skoðunarferð um borgina og gamla bæinn. Við ferðumst með kláf upp til Narikala virkisins sem hefur staðið frá fjórðu öld en þaðan er stórbrotið útsýni yfir borgina og Mtkvari ána. Við heimsækjum einnig Mother of Georgia minnismerkið og Freedom Square. Í hádeginu gefst frjáls tími.

Um kvöldið njótum við kvöldverðar saman á þjóðlegum veitingastað í borginni.

Morgun- og kvöldverður innifalinn.

Dagur 3 | 8. September

Við byrjum daginn á hótelinu með morgunverði áður en við leggjum land undir fót og ferðumst til Mtskheta. Þessi borg er ein sú elsta í landinu og var höfuðborg konungsveldis Íberíu á sínum tíma. Við heimsækjum einnig Jvari klaustrið sem byggt var á sjöttu öld og er á heimsminjaskrá UNESCO.

Okkar næsti áfangastaður er Svetitskhoveli Cathedral sem er önnur stærsta kirkja Georgíu og samkvæmt þjóðsögunni hafði íbúi frá Mtskheta verið viðstaddur krossfestingu Jesú og keypt serk hans af rómverskum hermanni í kjölfarið. Þegar hann kom með serkinn aftur í heimabyggð ákvað systir hans að snerta hann og lést samstundis. Ekki var hægt að losa serkinn úr höndum hennar og hún því grafin með honum og er sú gröf varðveitt í dómkirkjunni.

Við endum daginn á heimsóknum til tveggja þekktra vínræktanda. Fyrst er heimsókn til Iago's Cellar þar sem við fáum kynningu á vegum ræktandans og vínsmökkun á vínum þeirra og síðan keyrum við til Tbilvino vínræktandans þar sem við förum í stutta skoðunarferð og vínsmökkun að henni lokinni.

Morgun- og hádegisverður innifalinn.

Dagur 4 | 9. September

Við byrjum daginn á hótelinu með morgunverði. Fyrsti áfangastaður dagsins verður Zhinvali vatn þar sem við stöppum stutt og getum tekið ljósmyndir áður en haldið er til Ananuri þar sem við ætlum að skoða samnefndan kastala og virki. Kastalinn hefur séð margar orustur en sú þekktasta var árið 1739 þegar að óvinveittur hertogi, Shanshe Ksani, réðist til atlögu og kveikti í honum eftir að hafa unnið bardagann.

Gergeti Trinity Church er okkar næsta stopp sem hefur einmitt verið kölluð fallegasta kirkja í heimi og það af The Daily Telegraph auk þess að sjá minnismerki frá 1983 sem var byggt til að fagna samvinnu Rússlands og Georgíu, undir merkjum Sóvetríkjanna.

Að loknum hádegisverði heimsækjum við Gveleti foss - einn þann fallegasta í Georgíu. Við endum daginn í Tbilisi og frjáls tími um kvöldið.

Morgun- og hádegisverður innifalinn.

Dagur 5 | 10. September

Morgunverður á hótelinu. Þennan daginn förum við í dagsferð til Kakheti héraðsins sem er eitt það áhugaverðasta í Georgíu en það býr yfir mikilli náttúrufegurð, mörgum klaustrum, góðum mat og ríkri sögu - hér eru yfir 5000 sögulegar byggingar og munir auk þekktustu víngerðar landsins.

Koncho & Co. verður fyrsta heimsókn dagsins og lýkur henni með vínsmökkun áður en við keyrum til The Wine Yard # 1 vínekrunnar og heimsækjum fjölskylduna sem á hana, fáum að kynnast venjum og siðum heimamanna og borðum saman hádegisverð. Seinasti áfangastaður dagsins er https://www.shilda.com/ með tilheyrandi vínsmökkun áður en við förum á hótel um kvöldið.

Morgun- og hádegisverður innifalinn.

Dagur 6 | 11. September

Morgunverður á hótelinu. Við byrjum á að heimsækja vínframleiðandann Zaza þar sem við njótum vínsmökkunar áður en við förum í skoðunarferð til Alaverdi klaustursins. Næst förum við til bæjarins Telavi þar sem við getum gengið um og heimsótt þekktan markað áður en við förum í vínsmökkun til Telavi Marani. Endum síðan daginn á kvöldverði á hótelinu.

Morgun- og kvöldverður innifalinn.

Dagur 7 | 12. September

Að loknum morgunverði keyrum við til þorpsins Sighnaghi sem er þekkt fyrir vínræktun, metnaðarfulla matargerð og töfrandi umhverfi auk Bodbe klaustursins sem við heimsækjum einnig. Við förum þaðan til Giuaani Winery þar sem við borðum saman hádegisverð og njótum vínsmökkunar á vínum þeirra.

Eftir hádegisverð munum við heimsækja hinn forna hellabæ Uplistsikhe sem spilaði stórt hlutverk í sögu Georgíu um langt tímabil eða um 3000 ár. Endum daginn á hóteli.

Morgun- og hádegisverður innifalinn.

Dagur 8 | 13. September

Morgunverður á hótelinu áður en haldið er vestur. Við munum heimsækja Baia's Winery og njóta saman hádegisverðar og vínsmökkunar áður en keyrt er áfram til bæjarins Kutaisi þar sem við munum ganga um bæinn og skoða það sem fyrir augu ber eins áður en við endum daginn á hóteli.

Morgun- og hádegisverður innifalinn.

Dagur 9 | 14. September

Hefjum daginn á morgunverði á hótelinu áður en við setjum stefnuna á bæði Gelati klaustrið og Bagrati dómkirkjuna sem bæði eru á heimsminjaskrá UNESCO og skoðum þessi merku mannvirki betur áður en lengra er haldið.

Næst förum við í heimsókn til Oda Winery þar sem við hittum víngerðarkonuna Keto, fáum smá kynningu á starfsseminni, vínsmökkun og borðum saman hádegisverð.

Eftir þessa heimsókn förum við og skoðum Martvili Canyon gljúfrið sem er nánast eins og klippt úr úr ævintýraheimi. Við endum daginn á hóteli okkar og frjálsum tíma það sem eftir lifir dags.

Morgun- og hádegisverður innifalinn.

Dagur 10 | 15. September

Hefjum daginn á morgunverði á hótelinu áður en haldið er til Tbilisi. Við munum staldra nokkrum sinnum við á leiðinni, meðal annars til að heimsækja Sarajishvili’s Brandy og skoða framboð þeirra af spennandi koníaki.

Eftir að við komum inn á hótel gefst frjáls tími fram að sameiganlegum kvöldverði.

Morgun- og kvöldverður innifalinn.

Dagur 11 | 16. September

Við eigum flug frá Tbilisi klukkan 05:25 að staðartíma og áætluð lending í Riga er klukkan 08:55. Seinna flug heimferðarinnar er klukkan 10:45 að staðartíma og áætluð heimkoma klukkan 11:45.