Skoðunarferð Um Valletta
Valletta, The Fortress City, Citta Umilissima eða “borgin sem var byggð af göfugmennum fyrir göfugmenni”, er höfuðborg Möltu og miðstöð verslunar á eyjunum. Borgin er nefnd eftir stofnanda hennar og þekktasta Stórmeistara Mölturiddara, hinum dáða Jean Parisot de la Valette. Þessi stórbrotna virkis-borg reis á bergi Sceberras fjallsins og aðliggjandi skaga fyrir ofan hafnirnar tvær, Marsamxett og Grand Harbour. Bygging borgarinnar hófst árið 1566 og lauk á undraverðum tíma, einungis 15 árum, með tilheyrandi varnarvirkjum, virkisveggjum og dómkirkju. Það sem gerir þetta afrek enn merkilegra er að borgin var byggð með handafli einu og þeim tólum sem til voru á þeim tíma.
Í þessi skoðunarferð um götur og stræti Valletta gefst okkur tækifæri á að upplifa fegurð og sjarma þessarar borgar sem Mölturiddararnir byggðu. Reglan stýrði eyjunum í 268 ár og má víða sjá einstök menningarleg áhrif þeirra í borginni. Við hefjum ferðina á stórfenglegu útsýninu yfir Grand Harbour frá Upper Baracca Gardens. Næsti áfangastaður okkar er dómkirkjan, St. John’s Co-Cathedral þar sem hægt er að sjá og dást að meistaraverkum málarans Caravaggio auk flæmskra veggteppa og kirkjusafnsins sjálfs. Þessi dómkirkja hefur að geyma eitt fallegasta marmaragólf veraldar. Á leið okkar niður Republic Street göngum við meðal annars framhjá Grand Masters’ Palace og St. George’s Square sem var nýlega gert upp. Að því loknu fáum við að upplifa gríðarlega spennandi sýningu í 5D þar sem saga Möltu lifnar við.
Í gönguferð okkar um borgina eru nokkrir staðir sem við komum til með að skoða.
Malta 5D er nýmóðins sýning þar sem umhverfið er virkur hluti af upplifuninni. Saga Möltu er rakin á spennandi hátt á tjaldi í 3D þar sem við sitjum í sætum sem hreyfast, léttur vatnsúði og loftblásarar láta okkur líða eins og við séum stödd utandyra. Þetta er svo sannarlega eftirminnileg upplifun. Í anddyrinu er einnig hægt að skoða listaverk eftir Maltneska listamenn.
The Upper Barracca Gardens er friðsæll reitur í hjarta borgarinnar, nærri Castille Palace. Frá þessum görðum er frábært útsýni yfir Grand Harbour auk borganna Senglea, Vittoriosa og Kalkara. Þessir garðar eru byggðir ofan á gömlu virki á hæsta punkti Valletta og má rekja sögu þeirra aftur til ársins 1661 þegar að garðurinn var einkagarður Mölturiddaranna.
Það var ekki fyrr en 150 árum síðar sem garðarnir voru opnaðir almenningi og í dag geta gestir dáðst að litadýrð hinnar fjölbreyttu flóru plantna og trjáa sem þar er að finna. Hér eru styttur og minnismerki víðsvegar, meðal annars Les Gavroches brons skúlptúrinn sem og stytta tileinkuð Winston Churchill sem á rætur sínar að rekja til Seinni Heimsstyrjaldar en undir hvatningu forsætisráðherrans stóðu eyjan af sér gríðarlega miklar loftárásir og eyðileggingu án þess að missa móðinn eða baráttuanda sinn. Eyjan fékk viðurkenningu Georgs VI konungs snemma í árdaga átakanna sem sæmdi eyjuna Georg Cross.
Daglega koma saman meðlimir Malta Heritage Society í hádeginu klæddir sem breskir stórskotaliðar og skjóta kveðjuskoti.
Ferðin endar í miðbænum þannig að farþegar geta skoðað sig um, fengið sér hádegisverð eða haldið áfram að rölta um bæinn.
Lengd | Hálf dagsferð
Verð | 16.700 KR
22 Maí
Eyjan Gozo
Gozo er töfrandi eyja skammt frá Möltu og munum við sigla til hennar með ferju. Aðkoman er hin glæsilegasta, þegar við siglum inn hafnarmynnið tekur á móti okkur friðsæl höfnin og snotur kirkja sem trónir yfir henni.
Eyjan er um 67 km² að stærð og þar búa rétt um 34.000 manns. Gozo er þekkt fyrir afslappað andrúmsloft og margir heimamenn lýsa henni á þann veg að hún sé eins og Malta var á árum áður. Margir vilja meina að tíminn líði hægar á Gozo en annarsstaðar í heiminum.
Sjarmi eyjunnar er margþættur - gróskumikið landslagið teygir sig um eyjuna alla og bæði landbúnaður og fiskveiðar spila stórt hlutverk í daglegu lífi eyjaskeggja. Saga eyjunnar er hluta til goðsagnakennd, talið er að eyjan gæti verið hin dularfulla en friðsæla Calypso úr Ódysseifskviðu Hómers.
Þennan dag fá gestir tækifæri til að upplifa sumar af þekktustu hefðum eyjunnar sem byrjar á bátsferðinni frá Möltu. Okkar fyrsti áfangastaður er Ta Massar vínekran þar sem við smökkum afurðir frá eyjunni og fáum kynningu á framleiðsluferlum vínekrunnar.
Þaðan förum við til Marsalforn þar sem heimamenn verka salt en saga þessa iðnaðar á Gozo nær aftur til tíma Mölturiddaranna. Meðfram Norður-strönd Gozo sjáum við þessi 350 ára gömlu lón teygja sig meðfram strandlengjunni um 3 kílómetra leið. Þetta er ekki einungis áhugaverð sjón því þau eru hluti af menningu eyjunnar og hafa sumar fjölskyldur starfað við saltframleiðsluna í margar kynslóðir.
Á leið okkar þangað munum við einnig skoða Basilica of the National Shrine of the Blessed Virgin of Ta' Pinu sem var byggt á milli áranna 1920-1931. Ta Pinu er byggingarlistaverk með meiru, það er tilkomumikið ásýndar að utan og ekki síðra að innan með höggmyndum og glæsilegu handverki úr Maltnesku bergi. Helgistaðurinn var reistur fyrir framan kapelluna sem stóð þar upphaflega en hana átti að rífa árið 1575 að beiðni Pietro Dusina sem kom þangað á vegum Gregory XIII páfa en sagan segir að verkamaðurinn sem tók fyrsta (og eina) höggið hafi handleggsbrotnað við það. Var það túlkað sem fyrirboði um að kapellan ætti ekki að vera rifin og varð hún því sú eina á eyjunni sem var ekki eyðilögð.
Við altari kirkjunnar má enn finna málverkið Assumption to Heaven of Our Lady sem sagan segir að hafa talað til kotbóndans Karmni Grima í Júní árið 1883 og varð eftir það þekkt sem helgiskrín tileinkað Maríu Mey og enn þann dag í dag kemur mikill fjöldi fólks í pílagrímsferð hingað.
Fjórtán marmarastyttur liggja upp Ghammar hæðina gagnstætt kirkjunni sem tákna Via Crucis - sem sýna þrautagöngu Jesú Krists er hann gekk upp Calvary fjall til krossfestingar sinnar.
The Azure Window eða Dwejra Window var 28 metra hár náttúrulegur bogi úr bergi sem hafði staðist tímans tönn þar til 2017 þegar að hann brotnaði í stormi. Við munum staldra við þar og kynna okkur Dwejra flóann og aðliggjandi svæði sem er sannkallaður griðastaður stórbrotinnar náttúru.
Boginn hafði komið við í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á borð við kvikmyndina The Count of Monte Cristo og þættina Game of Thrones áður en hann skemmdist í storminum og var það gríðarlegur missir fyrir Maltverja.
Þrátt fyrir að boginn hafi sundrast þá er hann enn mjög vinsæll áfangastaður fyrir ferðamenn. Hér finnum við einnig The Blue Hole sem er náttúrulega mótað lón við sjóinn og tengist honum í gegnum neðanjarðargöng. Þetta er einn vinsælasti áfangastaðurinn í Evrópu fyrir kafara þar sem fegurðin undir yfirborðinu er óviðjafnanleg.
The Inland Sea er smár einangraður flói við Dwejra sem tengist sjónum í gegnum 80 metra löng náttúruleg göng en dýptin er allt frá 6 metrum í 25 metra þegar komið er út að sjónum. Það er ótrúlega fallegt sjónarspil þegar sólin skellur á djúpbláu hafinu sem lifir í minningunni þegar heim er komið.
Við snæðum saman síðbúinn hádegisverð á eyjunni.
Lengd | Heil dags ferð
Verð | 25.900 KR
23 Maí
Mosta, Mdina & Rabat
Við byrjum daginn á heimsókn til Mosta Dome. Þessi glæsilega kirkja geymir mikinn fjölda málverka eftir Giuseppe Cali og aðra hæfileikaríkra málara. Þegar kirkjan er heimsótt er tilvalið að ganga inn í sjálfan helgidóminn og skoða hinn mikla fjölda af munum sem eru til sýnis þar, þar á meðal fyrrnefnd málverk og líkan af kirkjunni auk eftirgerðar af sprengju sem fór í gegnum þakið og gróf sig í kirkjugólfið án þess að springa.
Mdina, sem gengur undir nafninu The Silent City, situr efst á hæð með útsýni yfir marga af bæjunum umhverfis hana. Þessi borg er óvenjuleg blanda af miðaldar borgarvirki og barokk-byggingarlist. Forðum daga bjuggu þar aðallega fjölskyldur af aðalsættum og mörg heimilin hér hafa erfst í margar kynslóðir og er búseta í þeim enn tengd við auðæfi. Þessi híbýli eru jafnan gríðarstór að innan en lítilfjörlegir inngangar blekkja augað áður en inn er komið. Gælunafnið fékk borgin sökum hljóðlátra stræta hennar og strangra laga um notkun bifreiða, þessi fjarvera vélarhljóða getur jafnvel gert gestum kleift að ímynda sér að þeir hafi ferðast aftur í tíma.
Inngangurinn að borginni heitir Mdina Gate eða Vilhena Gate. Hliðið var hannað í barokk stíl af hinum franska arkítekt og hernaðarverkfræðing Charles François de Mondion sem tilheyrði reglu Mölturiddaranna. Nafn hliðsins var valið til heiðurs stórmeistara reglunnar, António Manoel de Vilhena.
Við munum ganga um stórmerkileg stræti sem hafa lítið breyst síðan á miðöldum, umkringd virkisveggjum og fornum byggingum. Það er einstök upplifun að rölta um borgina og sjá það sem fyrir augu ber eins og Siculo-Norman höllina og svipaðar byggingar í barokk-stíl sem hafa mikið sögulegt gildi - auk hinnar fjölbreyttu flóru annarra byggingarstíla. Þessi hrífandi miðaldablær er ástæða þess að borgin er sannkölluð paradís fyrir kvikmyndagerð.
Við komum til með að heimsækja St. Paul’s Cathedral, þessi kirkja var hönnuð af Lorenzo Cafa og er hún sérlega tilkomumikil. Hún er mest áberandi byggingin í miðri Mdina þrátt fyrir að vera umkringd fleiri glæsilegum byggingum.
Seinasti áfangastaður dagsins er hinn aðliggjandi bær Rabat sem meðal annars er heimili St. Paul’s Catacombs. Katakombur eða grafhýsi af þessum toga í Mdina þróuðust út frá einföldum gröfum sem voru höggnar í bergið fyrir upphaf okkar tímatals.
Lengd | Hálf dagsferð
Verð | 14.300 KR
27 Maí
Öll leiðsögn í skoðunarferðum ytra er í höndum enskumælandi leiðsögumanna.
ATHUGIÐ að allir sem ætla í skoðunarferðir þurfa að skrá sig fyrir 20. APRÍL.
Greitt er fyrir skoðunarferðir áður en lagt er af stað frá Íslandi og fá farþegar greiðsluseðla til sín þegar skráningu lýkur.
Ferðaskrifstofan áskilur sér rétt til að fella niður ferðir ef lágmarksþátttaka næst ekki.