Ferðaáætlun

Dagur 1 | 13. Apríl

Áfangastaðir | Marrakesh, Marokkó | Atlasfjöll, Marokkó | Aït Benhaddou, Marokkó | Ouarzazate, Marokkó

Ferðin hefst á flugi frá Keflavík klukkan 09:00 að staðartíma til Marrakesh í Marokkó þar sem þið lendið klukkan 14:45 að staðartíma. Einkabílstjóri sækir hópinn á flugvöllinn og hefst þá ferðalagið með akstri yfir Atlasfjöll og í gegnum Tizi n'Tichka fjallaskarðið sem fer hæst í 2.260 metra hæð yfir sjávarmáli. Þið fáið tækifæri til að taka ljósmyndir af einstöku útsýninu á leiðinni til Ksar of Aït Benhaddou sem er gamalt virki byggt úr leir í byggingarstíla Mára og Berba ættbálksins. Aït Benhaddou var víggirt á 11. öld og er á heimsminjaskrá UNESCO enda eitt þekktasta kennileiti landsins og í dag býr þar enn fámennur hópur fólks. Áður fyrr þjónaði þessi virkisborg sem einn mikilvægasti áningarstaður ferðalanga á leið til og frá Sahara og Súdan svo dæmi séu tekin en í seinni tíð hefur hún verið notuð í fjölda Hollywood kvikmynda eins og The Gladiator, The Mummy og Lawrence of Arabia. Hér er staldrað við i hádegisverð áður en haldið er áleiðis til borgarinnar Ouarzazate.

Borgin Ouarzazate við Sahara eyðimörkina er oft kölluð “dyrnar að eyðimörkinni”, þessi 70 þúsund manna borg er klárlega ein sú áhugaverðasta í Marokkó, að ganga stræti hennar er eins og að ganga inn í heim bókanna “Þúsund og Ein Nótt”. Hér heimsækið þið svokallað kasbah [virki] en þau eru víða í Marokkó, algengt var að ættbálkar og smærri hópar festu rætur einhversstaðar og byggðu sér virki til varnar.

Þið borðið saman kvöldverð og gistið í Ouarzazate.

Dagur 2 | 14. Apríl

Áfangastaðir | Kelâat M'Gouna, Marokkó | Valley of Roses, Marokkó | Dadès Valley, Marokkó | Tafilalt, Marokkó | Merzouga, Marokkó

Að loknum morgunverði er stefnan sett á Kelâat M'Gouna, þekkt sem höfuðborg rósanna og Dadès dalinn sem er röð gila sem hafa mótast í bergið vegna hreyfinga ánnar Dadès, þessi gil og dalir eru afar tilkomumikil sjón. Á leið ykkar er keyrt hjá þorpum Berba fólksins sem má finna víða. Keyrt er nærri borginni Tinejdad og eyðimerkurvininni Tafilalt áður en haldið er áfram til þorpsins Merzouga.

Þegar komið er til Merzouga tekur við ferðalag um sandöldur eyðimerkurinnar á baki kameldýra. Nóttinni er varið í tjaldbúðum Berba og þið borðið saman kvöldverð þar sem spiluð er tónlist og ykkur gefst tækifæri til að taka fallegar ljósmyndir af bæði sólarlagi og sólarupprás í miðri eyðimörkinni.

Dagur 3 | 15. Apríl

Áfangastaðir | Ziz Valley, Marokkó | Midelt, Marokkó | Azrou, Marokkó | Ifran, Marokkó | Fez, Marokkó | Tafilalt, Marokkó

Dagurinn hefst með morgunverði. Fyrsti áningarstaður dagsins er Tafilalt pálmalundurinn sem er sá stærsti sinnar tegundar í heiminum. Keyrt er framhjá þúsundum pálmatrjáa á leiðinni til Ziz dalsins þar sem þið staldrið við og takið ljósmyndir af stórbrotnu útsýninu sem blasir við áður en haldið er til borgarinnar Midelt þar sem þið borðið hádegisverð.

Að loknum hádegisverði er haldið til Azrou en nafnið þýðir “grjót” eða “berg” á tungumáli Berba. Við bæinn er mikið skóglendi, fullt af sedrusvið og öpum sem þar búa og eru margir hverjir orðnir mjög gæfir - það er ekki óþekkt að gestir gefi þeim jafnvel smáræði að borða.

Seinasti áningarstarstaður dagsins er borgin Ifran, þekkt fyrir sérkennilegan arkitektúr í samanburði við aðra staði í Marokkó en bærinn liggur í miðjum Atlas fjöllum og er meðal annars heimili skíðasvæða sem eru afar vinsæl meðal ferðamanna.

Þið endið ferðalag dagsins í borginni Fez þar sem þið borðið saman kvöldverð og gistið.

Dagur 4 | 16. Apríl

Áfangastaðir | Fez, Marokkó

Eftir morgunverð tekur við skoðunarferð um borgina Fez sem auk borganna Rabat, Meknes og Marrakesh eru yfirleitt kallaðar hinar konunglegu borgir. Fez er ein elsta borg landsins með sögu sem nær aftur til 8. aldar. Hún er dularfull, rík og miðstöð bæði menningar og trúar í landinu. Gamli hluti borgarinnar eða Medina er ein best varðveitta menningararfleifð sinnar tegundar á heimsvísu. Þið farið í skoðunarferð um borgina með fararstjóra ykkar sem kynnir ykkur fyrir því sögulega djásni sem borgin er og heimsækið fræga útimarkaði.

Fez er þekkt fyrir vandaðar leðurvörur og framleiðslu og þessir gripir eftirsóttir. Í borginni er einnig að finna staði eins og konungshöllina, al-Qarawiyyin háskólann sem er elsti starfandi háskóli heimsins sem hægt er að hljóta háskólagráðu frá.

Þið munið heimsækja sútunar- og keramikverksmiðju þar sem ykkur gefst tækifæri til að sjá framleiðsluna.

Þið borðið saman kvöldverð og gistið í Fez.

Dagur 5 | 17. Apríl

Áfangastaðir | Meknes, Marokkó | Volubilis, Marokkó | Chefchaouen, Marokkó

Hefjið daginn með morgunverði. Þennan daginn munuð þið heimsækja borgina Meknes sem er ein af fyrrnefndum fjórum svokölluðu konunglegu borgum og er á heimsminjaskrá UNESCO. Á leið ykkar þangað komið þið við í hinni fornu höfuðborg Máritaníu, Volubilis sem var undir yfirráðum Rómverja og virðið fyrir ykkur rústir hennar á miðri sléttunni.

Stefnan er síðan sett á Chefchaouen sem liggur í 600 metra hæð í fjallahéraði, skammt frá Rif fjöllunum. Borgin á sér sögu aftur til 14. aldar og státar af hinu magnaða gælunafni, “Bláa Borgin”, sökum þess að húsin eru öll blá. Þið eigið notalega stund í borginni, skoðið Suk markaði og litlar verslanir eða þá götuvagna þar sem handunnir munir og listaverk fást keypt.

Þið borðið saman kvöldverð hér og gistið yfir nótt.

Dagur 6 | 18. Apríl

Áfangastaðir | Ouazzane, Marokkó | Casablanca, Marokkó

Að loknum morgunverði er haldið af stað til Casablanca, stærstu borgar Marokkó og sennilega þekktustu borgar landins, miðstöð verslunar og þjónustu. Samnefnd Hollywood mynd frá árinu 1942, gerði borgina ódauðlega og ekki varð hún minna þekkt eftir að Hemingway gerði hana að heimili sínu um tíma.

Ferðalagið tekur ykkur í gegnum Rif fjöllin og í gegnum bæinn Ouazzane sem er einna helst þekktur fyrir fallega náttúru og vinsælar gönguleiðir.

Einn mest spennandi áfangastaður ykkar í Casablanca er hin ókláraða Hassan Moska og grafhýsið, Mausoleum of Mohammed V, þar sem Mohammed fimmti og tveir synir hans, King Hassan II og prinsinn Abdallah hvíla.

Seinasti áningarstaður dagsins í Casablanca er Hassan II Moskan sem er ein sú stærsta í heiminum. Þessi vægast sagt stórfenglega bygging er 210 metra há og getur tekið á móti allt að 25,000 manns innandyra og upp í 80,000 fyrir utan þegar heimamenn safnast saman þar til bæna.

Þið borðið saman kvöldverð og gistið yfir nótt í Casablanca.

Dagur 7 | 19. Apríl

Áfangastaðir | Marrakesh, Marokkó

Frjáls dagur í Marrakesh.

Dagur 8 | 20. Apríl

Áfangastaðir | Keflavík, Ísland

Heimferðardagur. Að loknum morgunverði eruð þið sótt og keyrð á flugvöllinn í Marrakesh þar sem þið eigið flug klukkan 15:55 að staðartíma og lendið heima í Keflavík klukkan 20:30 að staðartíma.