Ferðaáætlun

Dagur 1 | 5. Febrúar
Áfangastaðir: New York, Bandaríkin

Við fljúgum til New York í Bandaríkjunum klukkan 17:00 og áætluð lending þar klukkan 18:10 að staðartíma. Við gistum á Radisson JFK Hotel þar til við tökum flug áleiðis til Mexíkó morguninn eftir.

Dagur 2 | 6. Febrúar

Áfangastaðir: Cancún, Mexíkó | Tulum, Mexíkó

Við hefjum daginn á flugi til Cancún í Mexíkó klukkan 10:40 að staðartíma og áætluð lending þar klukkan 15:08. Eftir að við höfum skráð okkur inn á hótelið förum við í heimsókn til annarst stærsta kóralrifs veraldar. Þar fáum við tækifæri til að skapa einstakar minningar þegar við snorklum með skjaldbökunum sem kalla kóralrifið heimkynni sín. Í Mexíkó er að finna sjö af átta tengdum skjaldbaka sem hafast við í sjó og mun leiðsögumaður okkar segja okkur betur frá þeim og kóralrifinu, sögu þeirra og stöðu beggja í dag.

Eftir sundsprettinn með skjaldbökunum förum við að heimsækja svokallað cenote sem eru neðanjarðarhellar fullir af vatni sem kemur í gegnum bergið frá jörðu. Þessa neðanjarðarhella má finna um allan Yucatan skagann, talið er að upp undir 10.000 cenotes séu dreifð um hann. Þessir neðanjarðarhellar virðast hafa verið notaðir í trúarlegum tilgangi og eru réttilega meðal einna mest spennandi fjársjóða landsins. Í dag býðst heimamönnum og gestum að taka svalandi sundsprett í fyrrnefndum cenotes sem við að sjálfsögðu prófum áður en dagskránni þennan daginn lýkur og við förum á hótelið okkar í Tulum.

Dagur 3 | 7. Febrúar

Áfangastaðir: Coba, Mexíkó | Bacalar, Mexíkó

Að loknum morgunverði höldum við til Coba fornleifasvæðisins sem geymir hæsta Maya pýramíðann í Mexíkó. Coba var áður Maya borg og á milli 900-600 ára fyrir upphaf okkar tímatals tengdi hún margar af mikilvægastu ferðaleiðum Maya heimsins. Coba var alráðandi á þessu svæði og fundist hafa fornleifar sem sýna að borgin átti í virku sambandi við aðrar Maya borgir innan og utan Mexíkó.

Coba nútímans er töluvert frábrugðið fyrri dýrð en hér er hægt að ganga um frumskóginn, njóta þess sem fyrir augu ber og fræðast um líf þeirra sem bjuggu í Coba.

Einnig munum við heimsækja fornleifasvæðið í Tulum sem liggur meðfram austurströnd Yucatan skagans við Karíbahafið. Þessi borg var ein sú seinasta sem Maya fólkið byggði og er talin hafa náð hátindi velmegunar sinnar á milli 13. og 15. aldar.

Við endum daginn í bænum Bacalar þar sem við gistum yfir nótt.

Dagur 4 | 8. Febrúar

Áfangastaðir: Calakmul, Mexíkó | Chicanná, Mexíkó

Að loknum morgunverði förum við og tökum sundsprett í Cenote Azul skammt frá bænum. Calakmul skógverndarsvæðið í suðurhluta Yucatan skagans er það stærsta sinnar tegundar í Mexíkó - rúmlega 7.200km2 að stærð. Frumskógurinn er heimili rústa og annarra fornminja frá tímum Maya fólksins sem var yfirgefið örfáum áratugum áður en Íslendingar komu saman á Þingvöllum árið 930 til að stofna þing okkar.

Frumskógurinn sjálfur hefur að geyma ansi fjölbreytta flóru og fánu til viðbótar við þær fornminjar sem fólkið skildi eftir sig. Að lokinni heimsókn okkar til Calakmul höldum við til vistþorpsins Chicanná þar sem við gistum yfir nótt á Chicanna Ecovillage Resort.

Dagur 5 | 9. Febrúar

Áfangastaðir: Palenque, Mexíkó

Við hefjum daginn á valfrjálsri gönguferð með fuglaskoðun í skógi sem er skammt frá hótelinu fyrir áhugasama áður en haldið er til Palenque fornleifasvæðisins. Skammt frá Palenque er Misol-Ha foss, þetta svæði er almennt talið sérlega fallegur áfangastaður og heimsókn þangað einstakt tækifæri til að tengjast aftur náttúrunni. Eftir þessa endurnærandi upplifun setjum við stefnuna á hótelið okkar í Palenque þar sem við gistum á Nututun Palenque Hotel.

Dagur 6 | 10. Febrúar

Áfangastaðir: Palenque, Mexíkó

Að loknum morgunverði förum við inn á sjálft fornminjasvæðið í Palenque og kynnum okkur það betur. Borgin sem upphaflega hét Lakam‘ha var ein merkasta borg síns tíma, bæði var hún talin ein fallegasta borg Maya fólksins og einnig var hún höfuðborg konungsveldis sem réði yfir stóru landsvæði frá fjöllunum í norðurhluta Chiapas til sléttanna í Tabasco.

Arkitektúr borgarinnar var sérlega vandaður og þau listaverk sem þar voru frá höggmyndum til myndskreytinga mjög nýstárleg í samanburði við aðrar borgir síns tíma.

Eftir skoðunarferð okkar um Palenque endum við daginn á að skoða Roberto Barrios fossana þar sem við getum fengið okkur sundsprett í einstaklega fallegu umhverfi áður en við förum til baka á hótelið okkar, Nututun Palenque Hotel.

Dagur 7 | 11. Febrúar

Áfangastaðir: El Ceibo, Mexíkó | Flores, Gvatemala

Að loknum morgunverði keyrum við af stað til bæjarins El Ceibo á landamærum Mexíkó og Gvatemala. Þaðan keyrum við áleiðis til bæjarins Flores í Petén-héraði, hann liggur að þriðja stærsta stöðuvatni landsins, Lake Petén Itzá. Þessi bær miðpunktur menningar og afþreyingar í héraðinu auk þess sem hann er einskonar gátt að flestum merkustu Maya fornleifasvæðum svæðisins.

Frjáls tími í Flores eftir að við höfum skráð okkur inn á hótel í lok ferðalagsins frá Mexíkó.

Dagur 8 | 12. Febrúar

Áfangastaðir: Tikal, Gvatemala

Hefjum daginn á morgunverði áður en við heimsækjum Tikal þjóðgarðinn og fornleifasvæðið sem geymir meðal annars hæsta Maya pýramíða sem vitað er af. Á göngu okkar um svæðið sjáum við fjölda ólíkra bygginga frá menningu Maya fólksins og framandi dýralíf. Í hjarta frumskógarins finnum við einnig leifar borgar sem eitt sinn réði yfir nærliggjandi svæði frá 6. öld fyrir upphaf okkar tímatals til 10. aldar.

Á meðal þess sem hægt er að sjá í Tikal eru einstaklega vel varðveitt hof og smáar hallir, vegir og gangbrautir auk rústa af heimilum íbúanna á víð og dreif um svæðið. Tikal er eitt mest spennandi fornleifasvæði sinnar tegundar sökum þess hversu vel varðveittar byggingarnar auk listaverkanna sem þar má finna eru.

Við endum daginn á hóteli okkar í Flores.

Dagur 9 | 13. Febrúar

Áfangastaðir: San Ignacio, Belís

Frjáls tími fram að síðdegi en þá leggjum við af stað frá Flores til San Ignacio í Belís. Eftir að við höfum skráð okkur inn á hótelið í Belís er síðan frjáls tími það sem eftir lifir kvölds.

Við gistum í Nabitunich - The Stone Cottages.

Dagur 10 | 14. Febrúar

Áfangastaðir: Mountain Pine Ridge Forest Reserve, Belís

Við hefjum daginn með morgunverði á hótelinu. Skoðunarferð dagsins tekur okkur upp í fjöllin þar sem við ætlum að heimsækja Mountain Pine Ridge Forest Reserve skógverndarsvæðið. Svæði þetta er að finna í Cayo-héraði og er um 780km2 að stærð og þakið furutrjám, lækjum og fossum, djúpum dölum og háu bergi auk einstakra hella í hlíðum fjallanna - þessi frumskógur er stórmerkileg andstaða við það skóglendi sem annars er að finna í þessum hluta heimsins.

Við endum daginn á sama hóteli, Nabitunich - The Stone Cottages.

Dagur 11 | 15. Febrúar

Áfangastaðir: Belize City, Belís | Caye Caulker, Belís

Eftir morgunverð setjum við stefnuna á hafnarborgina Belize City og tökum ferju þaðan áleiðis til eyjunnar Caye Caulker sem er önnur stærsta eyjan undan ströndum Belís. Áður fyrr var hún heimkynni fiskveiðimanna en er í dag gríðarlega vinsæll áfangastaður fyrir ferðamenn sem hafa áhuga á köfun, snorkli og stangveiði til viðbótar við þá sem heimsækja eyjuna til að sóla sig á fallegum ströndum hennar. Skemmtanalífið á eyjunni er með því betra og lítið mál að finna notalegt kaffihús eða bar til að fá smá hvíld frá sólinni þegar þess er þörf.

Við gistum yfir nótt á hóteli á Caye Caulker.

Dagur 12 | 16. Febrúar

Áfangastaðir: Hol Chan Marine Reserve, Belís

Hefjum daginn með morgunverði á hótelinu áður en við förum af stað til Hol Chan Marine Reserve náttúruverndarsvæðisins þar sem við munum snorkla. Hér gefst frábært tækifæri til að sjá falleg kóralrif, mismunandi tegundir hákarla og litríkra fiska í sínu náttúrulega umhverfi. Svæðið fékk verndunarstöðu sína árið 1987 með það markmið að koma í veg fyrir frekari skemmdir á kóralrifunum og vernda þau dýr sem þar lifa. Seinni part dags er síðan frjáls tími.

Við gistum á hóteli í Caye Caulker.

Dagur 13 | 17. Febrúar

Áfangastaðir: Playa del Carmen, Mexíkó

Þennan daginn siglum við yfir Karíbahaf frá Caye Caulker til Chetumal í Mexíkó, eftir að við höfum farið í gegnum landamæraeftirlitið keyrum við áleiðis til Playa del Carmen þar sem við gistum yfir nótt á Viva Maya by Wyndham.

Dagur 14 | 18. Febrúar

Áfangastaðir: Playa del Carmen, Mexíkó

Frjáls dagur. Við gistum áfram á Viva Maya by Wyndham.

Dagur 15 | 19. Febrúar

Áfangastaðir: New York, Bandaríkin | Keflavík, Ísland

Heimferðardagur - við eigum flug klukkan 11:50 til New York þar sem áætluð lending er klukkan 15:33 að staðartíma. Við eigum síðan annað flug heim til Keflavíkur klukkan 19:25 að staðartíma og áætluð lending heima á Íslandi klukkan 06:10.