Ferðaáætlun

Dagur 1 | 6. Júlí

Ferðin hefst á flugi frá Keflavík til Lisbon í Portúgal klukkan 16:00 og áætluð lending ytra klukkan 21:20 á staðartíma. Eftir að við höfum náð í farangur okkar verðum við sótt og keyrð upp á hótelið okkar, Turim av Liberdade Hotel.

Dagur 2 | 7. Júlí

Hefjum daginn með morgunverði á hótelinu áður en við leggjum af stað í áttina að hinu svokallaða Beira Interior svæði nærri landamærunum að Spáni. Fyrsti áfangastaður okkar verður bærinn Monsanto sem hefur hlotnast sá heiður að verða valinn sem þjóðlegasti bær landsins. Gróskumikil náttúra og arkitektúr bæjarins gefa honum óvenjulegan blæ sem gleymist seint og náttúrulegar varnir hans, samkvæmt þjóðsögum, gerðu hetjunni Viriathus kleift að halda bænum frá því að falla í hendur Rómverja í heil sjö ár er þeir umkringdu bæinn. Við munum ganga um svæðið og auk þess að fræðast um sögu þess munum við kynna okkur hvernig sjónvarpsþættirnir “House of the Dragon” voru að hluta til teknir upp þar.

Næst heimsækjum við þorpið Idanha-a-Velha, sem á tímum Vísigotana var virki sem hét Egitania og var höfuðvígi konungsins Wamba. Hér munum við skoða kirkju þorpsins, kapellu hins heilaga anda, turn Templarariddaranna og pressu sem brúkuð er til framleiðslu ólífuolíu.

Dagskrá dagsins endar með notalegri stund á heilsulindinni “Termas & SPA do Cró” á hótelinu sem við gistum á þessa nótt, Cró Hotel Rural.

Dagur 3 | 8. Júlí

Að loknum morgunverði munum við heimsækja Belmonte í hjarta Cova da Beira héraðsins. Belmonte er sólríkt svæði með fallegu landslagi, gestrisnum heimamönnum og ríkri sögu aldir aftur í tímann. Við förum gangandi í skoðunarferð með leiðsögumanni frá svæðinu og mun hann kynna fyrir okkur sögu þess. Við sjáum styttu af portúgalska landkönnuðinum Pedro Álvares Cabral, Castillo de Belmonte kastalann, Igreja De Santiago E Panteao Dos Cabrais kirkjuna, gyðingahverfið og Museu Judaico de Belmonte, safn gyðinga og þeirra sögu á svæðinu.

Næst höldum við til Sortelha, eins af snotrustu og elstu bæjum landsins. Hann er þekktur fyrir áhugaverðan arkitektúr sem hefur haldist nánast óbreyttur frá endurreisnartímabilinu til dagsins í dag. Leiðsögumaður frá svæðinu tekur okkur með sér gangandi í skoðunarferð um bæinn og stræti hans í kringum tilkomumikinn kastala frá 13. öld sem trónir yfir nærliggjandi byggð. Að auki munum við meðal annars sjá Torre de Menagem, Igreja Matriz, Torre Belleira og Largo do Pelourinho.

Við gistum áfram á Cró Hotel Rural.

Dagur 4 | 9. Júlí

Dagurinn hefst með morgunverði áður en dagskrá dagsins hefst. Í Portúgal eru tólf þorp sem leggja sérlega mikið upp úr að varðveita arkitektúr fyrri alda, hefðir og þjóðlega menningu og þau verða viðfangsefni dagsins.

Við keyrum til þorpsins Sabugal í samnefndu sveitarfélagi og heimsæjum þar Castelo das Cinco Quinas kastalann sem er þekktur fyrir óvenjulega hönnun sína og fallegt umhverfi.

Næst höldum við til Almeida að skoða virkið þar sem er í laginu eins og stjarna, árið 1810 gáfust verjendur virkisins upp fyrir her Frakka í kjölfar umsáturs og ógnvænlegra sprengjuárásar þeirra. Við endum heimsóknina til Almeida með stuttu stoppi í El-Rey reiðskólanum.

Þorpið Castelo Rodrigo og sögusvæðið í kring er næsti áfangastaður okkar þar sem við skoðum Pillory of Pinhel minnismerkið, kirkjuna og rústir fornrar byggðar.

Seinasti áfangastaður dagsins er bærinn Vila Nova de Foz Côa og safn þar, Côa Museum. Þrátt fyrir að vera eitt stærsta safn landsins fer ekki mikið fyrir því þar sem það stendur ofarlega á hæð yfir bænum. Hér mætast tvö svæði á heimsminjaskrá UNESCO, Alto Douro Wine Region og Parque Arqueológico do Vale do Côa.

Við endum daginn á hótelinu okkar í Vila Nova de Foz Côa, Longroiva Rural Hotel.

Dagur 5 | 10. Júlí

Eftir morgunverð leggjum við af stað frá Longroiva til vínhéraðsins Douro, verndað svæði á heimsminjaskrá UNESCO. Á ferðalaginu munum við stoppa við útsýnispall hjá Miradouro de São Salvador do Mundo og virða fyrir okkur helstu kennileiti svæðisins - dalinn sem Douro áin rennur í gegnum.

Næst heimsækjum vínsafnið í São João da Pesqueira sem geymir fróðleik um vínrækt á svæðinu og við endum heimsóknina með vínsmökkun.

Seinasti dagskrárliður dagsins verður vínsmökkun og skoðunarferð um vínkjallarann í Ervedosa do Douro í São João da Pesqueira.

Við gistum á Placido Hotel Douro Tabuaço í Douro.

Dagur 6 | 11. Júlí

Byrjum daginn með morgunverði á hótelinu áður en við höldum af stað í átt að bænum Pinhão þar sem við förum um borð í bát og njótum tveggja klukkutíma siglingar um ána Douro. Á siglingunni sjáum við tilkomumikla brú Gustave Eiffel, fallegar vínekrur sem liggja að árbakkanum og dásamlegt umhverfið.

Við höldum áfram leið okkar til borgarinnar Guimarães, fæðingarstaðar portúgölsku þjóðarsálarinnar. Hér heimsækjum við kastala og kirkju São Miguel þar sem fyrsti konungur Portúgal, Afonso I, var skírður. Næst munum við stoppa og skoða Palace Duques de Bragança höllina og ganga nærliggjandi stræti, þar á meðal Rua de Santa Maria og Largo da Oliveira. Við munum sjá Igreja de Nossa Senhora da Oliveira kirkjuna og Padrão do Salado minnismerkið áður en við endum daginn í hafnarborginni Porto, annarri stærstu borg Portúgal.

Við gistum á Holiday Inn Porto Gaia.

Dagur 7 | 12. Júlí

Að loknum morgunverði höldum við til Serra do Pilar þar sem við virðum fyrir okkur fallegt landslagið og njótum útsýnisins yfir gamla bæjarhlutann í Vila Nova de Gaia. Við keyrum Dom Luís I brúnna á leið okkar til Porto dómkirkjunnar og Terreiro da Sé, glæsilegrar byggingar frá 12. öld. Við förum og skoðum hafnarsvæðið og aðliggjandi borgarhluta þar sem við byrjum á São Bento járnbrautarstöðinni sem “Travel & Leisure” telur vera eina fallegustu og mest ljósmynduðu járnbrautarstöð í heiminum. Við endum dagskrá morgunsins með stuttu stoppi í Palácio da Bolsa, verðbréfahöllinni.

Seinni partinn heimsækjum við Casa da Música tónleikahöllina auk strandsvæðisins í Porto og borginni Matosinhos.

Við gistum áfram á Holiday Inn Porto Gaia.

Dagur 8 | 13. Júlí

Að loknum morgunverði ferðumst við til háskólaborgarinnar Coimbra sem er heimili eins elsta háskóla Evrópu, starfræktur frá árinu 1290. Við munum heimsækja Paço das Escolas, Joanina bókasafnið sem er eitt merkasta dæmi um barokk arkitektúr í Portúgal, Royal Palace höllina og svæði auk Chapel of São Miguel.

Næst heimsækjum við Fátima og Santuário de Fátima sem hýsir einn mikilvægasta helgidóm kaþólikka sem aðhyllast hugmyndafræði trúnnar með Maríu að leiðarljósi. Talið er að um sex milljónir pílagríma geri sér ferð þangað árlega. Á þessu svæði munum við einnig heimsækja Basilica of Our Lady of the Rosary of Fátima, Basilica of the Holy Trinity og Chapel of the Apparitions.

Við gistum á Turim av Liberdade Hotel í borginni Lissabon.

Dagur 9 | 14. Júlí

Hefjum daginn með morgunverði á hótelinu. Stefnan er sett á bæ sem ber nafnið Nazaré og er best þekktur fyrir gífurlega háar öldur sem gerir hann afskaplega vinsælan meðal brimbrettaiðkenda. Hér skoðum við Sítio da Nazare sem stendur á bergi í um 318 metra hæð yfir sjávarmáli og njótum ótrúlegs útsýnisins sem blasir við okkur þaðan. Við skoðum einnig vitann þar, Our Lady of Nazaré Sanctuary og Ermida da Memória kapelluna.

Miðaldabærinn Óbidos er næsti áfangastaður. Innan virkisveggja hans munum við þræða heillandi miðaldastræti og virða fyrir okkur gullfallegar byggingarnar. Það er nánast skylda hvers ferðamanns sem heimsækir bæinn að smakka Ginja de Óbidos, kirsuberjalíkjör sem munkar frá svæðinu bjuggu til á 17. öldinni með því að blanda saman Morello kirsuberjum og koníaki. Skoðunarferð dagsins endar með stoppi í kirkjunni Igreja de Santa Maria þar sem við getum séð óhefðbundna en töfrandi samsetningu af ólíkum stefnum arkitektúrs.

Við gistum á Turim av Liberdade Hotel.

Dagur 10 | 15. Júlí

Eftir morgunverðinn leggjum við af stað til bæjarins Sintra í hjarta samnefnds fjallahéraðs. Landslag héraðsins telst svo fagurt að það hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 1995. Bærinn hefur heillað konunga og veitt skáldum innblástur, slík er fegurðin. Hér munum við heimsækja National Palace of Sintra, ein fárra slíkra halla frá miðöldum sem hafa staðið nánast óbreyttar frá upphafi. Hér fáum við að smakka ostakökur og þjóðleg sætindi héraðsins.

Næst förum við og skoðum Pena Palace í hæðum Sintra. Höllin var byggð og skipulögð af konunginum Ferdinand II á 19. öld þar sem rústir munkaklausturs stóðu en klaustrið hafði nánast gjöreyðilagðist í miklum jarðskjálfta árið 1755. Höllin er íburðarmikil samsuða af skærum litum og fögrum skúlptúrum úr steini sem má hæglega líkja við kastala úr ævintýri. Frá höllinni sjáum við Castle of the Moors, kastali byggður af Márum á 9. öld til varnar gegn ágangi krossfaranna.

Við endum daginn með heimsóknum til Cabo da Roca klettanna, Guincho strandarinnar, Boca do Inferno, sem er náttúrulegur bogi úr bergi, auk strandbæjarins Cascais áður en við snúum aftur til Lissabon þar sem við gistum áfram á Turim av Liberdade Hotel.

Dagur 11 | 16. Júlí

Hefjum daginn með morgunverði á hótelinu. Dagskráin þennan daginn verður skoðunarferð um Lissabon, við munum meðal annars heimsækja Belém Tower sem er minnisvarði um arkitektúrstefnu stjórnar Manuel I konungs og Padrão dos Descobrimentos minnismerkið sem var reist til heiðurs portúgölskum landkönnuðum á borð við Dom Henrique, einnig þekktur sem Prince Henry the Navigator og afrekum slíkra þjóðhetja í þágu lands og þjóðar.

Einnig heimsækjum við Jerónimos Monastery sem er þekkt fyrir tilkomumikinn arkitektúr og nýtur þess heiðurs að vera hinsti hvíldarstaður landkönnuðarins Vasco de Gama sem er talinn hafa uppgötvað sjóleiðina frá Evrópu til Indlands.

Morguninn endar með sætindum - við kynnum okkur og smökkum þjóðleg sætindi og bakkelsi hjá bakaríinu Pastéis de Belém.

Seinni partinn munum við síðan heimsækja Praça do Comércio torgið sem liggur við höfn borgarinnar, Castelo de São Jorge kastalann sem stendur á hæð í miðju gamla borgarhlutans, Miradouro de Santa Luzia útsýnispallinn sem gerir okkur kleift að sjá yfir ána Tagus og Alfama hverfið og að lokum skoðum við Cathedral of Saint Mary Major dómkirkjuna, einnig þekkt undir nafninu Lisbon Cathedral.

Við endum daginn með kvöldverði á “Casas de Fado” veitingastað sem sérhæfir sig í þjóðlegum réttum og njótum samnefndrar Fado tónlistar sem er spiluð fyrir okkur meðan á máltíðinni stendur.

Við gistum áfram á Turim av Liberdade Hotel.

Dagur 12 | 17. Júlí

Morgunverður á hótelinu. Flugið okkar frá Lissabon til Íslands er klukkan 22:20 að staðartíma og lendum heima klukkan 01:50 að staðartíma þann 18. Júlí.