Dagur 1 | 5. Júní
Ferðin hefst með flugi frá Keflavíkurflugvelli til Riga í Lettlandi klukkan 00:30 þann 5. Júní og lendum við þar klukkan 07:05. Riga er afskaplega falleg borg og margt spennandi að sjá hér, til dæmis eitt stærsta samansafn af Art Noveau og Jugend byggingalist. Gamli bærinn í Riga er á heimsminjaskrá UNESCO og auðvelt fyrir gangandi vegfarendur að komast leiðar sinnar þar.
Við verðum sótt á flugvöllinn og keyrð á hótelið okkar þar sem við skráum okkur inn og fáum okkur morgunverð. Að innskráningu lokinni fáum við nokkrar klukkustundir til að hvílast eftir ferðalagið.
Klukkan 14:00 hefst skoðunarferð um Riga þar sem við munum meðal annars skoða Riga Central Market, einn stærsta markað Evrópu og er hann staðsettur í gömlum flugskýlum fyrir loftskip, á þessum markaði má finna allt frá matvöru til fatnaðar. Að auki munum við heimsækja gamla bæinn og kynnast sögu Riga, heimsækja sjálfan miðbæinn og fleiri spennandi staði, þar á meðal garn- og handverksbúðir.
Að lokinni skoðunarferð gefst frjáls tími í Riga til að skoða borgina eða heimsækja einn af þeim fjölmörgu veitingastöðum eða börum sem þar eru, til dæmis.
Dagur 2 | 6. Júní
Morgunverður á hótelinu. Dagskráin þennan dag hefst klukkan 10:00 með heimsókn til National Costume Center - Senā Klēts sem er handverks vinnustofa, verslun og heimkynni einstaks safns þjóðbúninga frá hinum fjölmörgu héruðum landsins, meðal þeirra prjónaðir munir. Við fáum stutta kynningu og fræðslu um sögu þjóðbúninga og gerðar þeirra í aldanna rás.
Að lokinni kynningu býðst okkur að taka þátt í námskeiði undir handleiðslu eins af handverkskonum vinnustofunnar. Á námskeiðinu verður okkur kennt að prjóna vettlinga og/eða sokka á þjóðlegan máta auk svonefndra mauchi - prjónaðar hlífar fyrir hand- og fótleggi. Garn er innifalið á námskeiðinu.
Te, kaffi og léttar veitingar verða í boði á námskeiðinu auk þess sem vinnustofan selur lettneskar hannyrðabækur tengdar þjóðlegu prjóni. Þessi heimsókn varir til klukkan 15:00 og að henni lokinni fáum við frjálsan tíma þar til við hittumst aftur um kvöldið.
Klukkan 18:00 förum við saman á Riga Black Magic Bar þar sem við munum fá stutta kynningu og fræðslu um uppruna lettnesks líkjörs, Black Balsam, sem var búinn til af Abraham Kunze á 18. öld. Þessi líkjör samanstendur af 24 mismunandi hráefnum en uppskriftin sjálf er vel varðveitt leyndarmál. Við munum smakka tvennar útgáfur, Classic Riga Black Balsam (45%) og Black Currant (34%) auk þess að fá kaffi og súkkulaði trufflur.
Að lokinni smökkun förum við saman á veitingastaðinn Kaļķu Vārti í gamla bænum og njótum kvöldverðar þar í hlýlegu umhverfinu.
Dagur 3 | 7. Júní
Morgunverður á hótelinu. Klukkan 09:15 leggjum við af stað í skoðunarferð dagsins, heimsókn til “The Ethnographic Open-Air Museum of Latvia”, lettneska byggðasafnið. Frá því að við mætum til klukkan 16:00 munum við hafa tíma til að skoða “Grand Traditional Arts & Crafts Market” sem er stærsti árlegi handverksmarkaður Lettlands, handverksfólk og aðrir listamenn koma frá öllum héruðum landsins til að sýna og selja verk sín. Samhliða sjálfum markaðinum eru haldnar vinnustofur og námskeið, tónleikar og danssýningar þar sem listamenn flytja þjóðlega tónlist og sýna þjóðlega dansa auk þess sem veitingamenn bjóða upp á úrval þjóðlegra rétta.
Heimsóknin varir til klukkan 16:30 en þá förum við aftur til Riga á hótelið okkar. Frjáls tími það sem eftir lifir dags til að njóta alls sem borgin hefur upp á að bjóða.
Dagur 4 | 8. Júní
Þennan daginn býðst val milli þess að eiga frjálsan dag í Riga eða fara í stórskemmtilega skoðunarferð til Rundale hallarinnar og Bauska kastalans.
Skoðunarferðin hefst klukkan 09:30 með akstri til Rundale hallarinnar sem er stórfenglegt meistarastykki byggt í barokk og rókókó stíl og hefur verið borin saman við Versalahöllina í Frakklandi. Höllin er sú stærsta í ríkjum Eystrarsaltslandanna og ein þeirra stærstu í Norður-Evrópu. Höllin var byggð á milli 1736-1740 fyrir Ernst Johan von Biron, Greifa af Courland. Hún var hönnuð af hinum fræga arkítekt Francesco Bartolomeo Rastrelli sem starfaði við rússnesku hirðina en hann hannaði einnig Vetrarhöllina í St. Pétursborg. Í dag hefur höllin verið gerð upp að hluta og um helmingur hinna 100 herbergja og sala aðgengileg gestum, með upprunalegum innréttingum og húsgögnum. Við höllina er stór og glæsilegur garður sem var einnig hannaður af Rastrelli. Aðgangur greiðist sérstaklega af hverjum þátttakenda á staðnum.
Seinni hluti skoðunarferðarinnar er síðan heimsókn til Bauska kastalans sem er eini slíki kastalinn frá endurrreisnartímabilinu sem hefur verið gerður upp að fullu. Kastalinn skiptist í tvennt, annarsvegar rústir kastalabyggingar frá 15. öld sem tilheyrði þýsku riddarareglunni “The Livonian Order” og síðan höll frá 16. öld sem tilheyrði Kurzeme hertogunum. Bauska kastalinn er einstök birtingarmynd hernaðarlegs arkitektúrs Lettlands frá 15. - 17. öld. Aðgangur greiðist sérstaklega af hverjum þátttakenda á staðnum.
Áætluð koma á hótelið okkar í lok skoðunarferðar er klukkan 16:00 og frjáls tími það sem eftir lifir dags.
Dagur 5 | 9. Júní
Hefjum daginn á morgunverði áður en við skráum okkur út af hótelinu klukkan 09:30 og keyrum af stað til þorpsins Mandegas.
Við munum fá kynningu og fræðslu um náttúrulega litun á garni með mismunandi jurtum. Séfræðingurinn Asnate tekur á móti okkur á heimili sínu sem er gömul vatnsmylla og þar sýnir hún okkur hluta af ferlinu og safn hennar af ólíku garni. Jurta te og léttar veitingar í boði.
Klukkan 11:30 leggjum við af stað til bæjarins Limbaži og mun keyrslan taka um það bil hálfa klukkustund. Þegar við komum þangað heimsækjum við ullar og garn verksmiðjuna Limbažu Tīne SIA sem er þekkt fyrir framleiðslu garns úr bæði innfluttri ull sem og ull úr héraði auk ólíkra afurða úr fyrrnefndu garni eins og teppi og trefla svo eitthvað sé nefnt.
Klukkan 13:30 snæðum við saman tvírétta hádegisverð á veitingastað í Limbaži.
Að loknum hádegisverðinum höldum við af stað til Ķoņu Dzirnavās sem er ~240 ára gömul mylla nærri bænum Rūjiena. Ķoņu er söguleg mylla og ullar verksmiðja í sömu byggingunni. Hlutverk myllunnar var að skapa rafmagn svo hægt væri að framleiða bæði hveiti og vinna ull. Myllan sjálf hefur verið gerð upp en helsta tekjulind þeirra í dag kemur frá ferðaþjónustu, rekstri gistiheimilis og sölu á ýmsum munum úr ull. Heimsókn okkar til Ķoņu Dzirnavās lýkur með sameiginlegum kvöldverði á gistiheimilinu þar sem boðið er upp á brauð og rétti úr hráefnum af svæðinu.
Klukkan 18:00 leggjum við af stað til bæjarins Pärnu í Eistlandi en bærinn er jafnan kallaður “Summer Capital of Estonia” sökum vinsælda hans meðal Eista í sumarfríum. Eftir að við höfum skráð okkur inn á hótel er frjáls tími það sem eftir lifir kvölds.
Dagur 6 | 10. Júní
Morgunverður á hótelinu. Við leggjum af stað klukkan 09:40 í átt að búgarði sem er heimili alpaca dýra. Þessi búgarður er sá stærsti sinnar tegundar í Eystrasaltslöndunum og hér getum við séð þessi stórskemmtilegu dýr - þeir sem leggja í það geta jafnvel gefið þeim að borða! Á búgarðinum er einnig hægt að kaupa garn úr alpaca ull sem er safnað og unnið á búgarðinum. Að lokinni heimsókninni keyrum við af stað til þorpsins Tõstamaa.
Þegar komið er til Tõstamaa hittum við Anu sem býr á svæðinu og er sérfræðingur í prjóni. Anu mun halda fyrir okkur vinnustofu / námskeið í eistnesku prjóni og hannyrðum í handverksmiðstöð þorpsins, kaffi og léttar veitingar verða í boði meðan á vinnustofunni stendur. Að lokinni vinnustofunni gefst okkur tækifæri á að versla muni og handverk eftir handverksfólk frá svæðinu í verslun miðstöðvarinnar.
Á þessu námskeiði hjá Anu verður kennd aðferðin “roositud/ inlay knitting”. Með þessari aðferð er mynstur búið til með því að leggja mynsturþráðinn annað hvort fyrir framan eða aftan við prjónið meðan orjónað er. Sjá mynd. Við munum prjóna nálapúða á mjög fíngerða prjóna ( 1.5mm). Allt efni er innifalið - garn, prjónar, ull til að fylla í og garn til að búa til snúru sem síðan er saumuð á nálapúðann. Námskeiðið tekur sirka 3 klst.
Við leggjum af stað aftur til Parnu í kringum 15:30 og munum við vera komin aftur á hótelið okkar um klukkustund seinna.
Frjáls tími það sem eftir lifir dags til að slaka á, kynna sér svæðið eða njóta þess sem heilsulind hótelsins hefur upp á að bjóða.
Dagur 7 | 11. Júní
Morgunverður á hótelinu og síðan skráum við okkur út. Klukkan 10:00 förum við í stutta skoðunarferð um gamla bæjarhluta Pärnu og kynnumst áhugaverðri sögu bæjarins. Pärnu tilheyrði áður fyrr Hansasambandinu sem var bandalag verslunarborga og borgríkja á miðöldum. Meðal þess sem við sjáum og heimsækjum í skoðunarferðinni er Maarja-Magdaleena Gild sem er handverks miðstöð og verslun sem sýnir aðallega handverk frá svæðinu.
Klukkan 12:00 keyrum við af stað til Riga og verðum við komin þangað seinnipartinn. Við geymum farangurinn á hótelinu og höfum síðan frjálsan tíma í borginni þar til sirka klukkan 20:30 þegar við verðum sótt og keyrð á flugvöllinn.
Við eigum flug frá Riga klukkan 22:45 og áætlaður komutími heima á Íslandi klukkan 23:40.