Ferðaáætlun

Dagur 1 | 4. September | Miðvikudagur

Ferðin hefst á flugi með íslenska fararstjóranum okkar frá Keflavík kl. 08:50 til Riga í Lettlandi þar sem við lendum kl. 15:25 á staðartíma. Frá flugvellinum förum við upp á hótelið okkar, Tallink Hotel Riga.

Dagur 2 | 5. September | Fimmtudagur

Við fljúgum frá flugvellinum í Riga klukkan 15:00 til Tashkent, höfuðborgar Uzbekistan, þar sem við lendum klukkan 22:00 á staðartíma. Frá flugvellinum förum við á hótelið okkar, Ramada Tashkent.

Dagur 3 | 6. September | Föstudagur

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu áður en við förum í skoðunarferð um höfuðborgina. Við munum margt spennandi þennan daginn eins og Hazrati Imam Complex sem er samansafn af tilkomumiklum byggingum sem voru reist nærri gröf Hazrati Imam, einum af fyrstu predikurum Islam í borginni. Einnig heimsækjum við Barak Khan madrasah sem var upphaflega byggt sem skóli til að kenna fræði Islam á 16. öld en er kannski þekktastur fyrir að geyma elsta núlifandi eintak Kóransins og Chorsu Bazaar markaðinn sem er í hjarta gamla borgarhlutans þar sem við fáum spennandi innsýn í daglegt líf heimamanna. Við prófum síðan að ferðast með neðanjarðarlest borgarinnar sem þjónaði sem eitt af þrettán slíkum lestarkerfum Sovétríkjanna, þessi mögnuðu mannvirki eru lítið þekkt sökum þess að öll myndataka var bönnuð í þeim þar til árið 2018 - upphaflega hugmyndin á bakvið kerfin var að það myndu þjóna sem kjarnorkubyrgi ef kæmi til átaka við vestrið.

Amir Temur Square torgið er hlaðið sögu Úsbekistan. Upphaflega byggt árið 1882 af Nikolai Ulyanov í þjónustu rússneska keisaraveldisins, endurbyggt og endurnefnt sem Revolution Square í kjölfar rússnesku byltingarinnar árið 1917 þá sá torgið reistar styttur af Stalín sem síðar voru rifnar niður og loks eftir að Sovétríkin liðu undir lok fékk torgið núverandi nafn sitt - Amir Temur eða Independence Square til að fagna sjálfstæði þjóðarinnar.

Við endum daginn á að heimsækja ríkisrekna listasafnið Museum of Applied Art þar sem sýnd eru þúsundir verka af öllum toga frá útskurði til útsaumar og skartgripahönnunar.

Við endum daginn á hóteli okkar, Ramada Tashkent.

Dagur 4 | 7. September | Laugardagur

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu áður en við förum í lestarferð til borgarinnar Samarkand og í skoðunarferð um hana. Við byrjum á að heimsækja Gūr-i Amīr grafhýsið, eitt mikilvægasta kennileiti borgarinnar í augum heimamanna, sem var reist fyrir tilskipan Amir Temur og nafnið má lauslega þýða sem “Gröf Konungsins”. Næst skoðum við Registan torgið sem var hjarta borgarinnar þegar hún tilheyrði Timurid heimsveldinu og Bibi-Khanym moskuna sem á 15. öld var ein stærsta og glæsilegasta moska veraldar. Um miðja 20. öldina hafði ástandinu hnignað töluvert en hún fór í gegnum mikla endurbyggingu á tímum Sovétríkjanna.

Siab Bazaar er stærsti slíki markaðurinn í Samarkand, staðsettur nærri Bibi-Khanym moskunni og er gríðarlega vinsæll áfangastaður fyrir bæði heimamenn og ferðalanga sem vilja upplifa menningu Uzbekistan. Við endum daginn á heimsókn til Shah-i-Zinda sem er samnefni yfir fleiri en tvo tugi af trúar- og menningarlega dýrmætum byggingum sem voru reistar yfir nokkurra alda tímabil.

Við endum daginn á hóteli okkar, Emirkhan Hotel.

Dagur 5 | 8. September | Sunnudagur

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu áður en við keyrum til þorpsins Mitan. Í heimsókn okkar hér munum við meðal annars fá master-class kennslu í matargerð að hætti heimamanna, skoða akra þeirra þar sem bómull er ræktuð, eiga notalega stund með fjölskyldu sem býr á svæðinu og þau segja okkur frá lífi sínu og þorpsins. Við snæðum saman hádegisverð í þorpinu. Þessi skoðunarferð er einstakt tækifæri til að týna sér í töfrum daglegs lífs Uzbekistan áður en við höldum aftur til hótelsins okkar, Emirkhan Hotel, í Samarkand.

Dagur 6 | 9. September | Mánudagur

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu. Þennan dag munum við heimsækja Ulugh Beg Observatory stjörnuskoðunarstöðina sem var byggð um ~1420 af stjörnufræðingnum Ulugh Beg. Stöðin var miðstöð slíkra rannsókna og fræða í mið-Asíu lengi vel.

Hodja Daniyar Mausoleum er hinsti hvíldarstaður Khodja Daniyar, spámannsins Daníels og er áfangastaður pílagríma múslima, gyðinga og kristna. Næst heimsækjum við Afrasiab Museum við fornleifasvæðið Afrasiyab sem er eitt stærsta sinnar tegundar í heiminum og það elsta í Samarkand. Safnið segir frá stofnun Samarkand, sögu hennar og byggð Afrasiyab.

Við endum daginn í þorpinu Konigil þar sem við skoðum pappírsverksmiðju frá byrjun 8. aldar - líftími pappírsins sem var framleiddur hér er talinn vera um ~400 ár sem er stórmerkilegt í samanburði við áætlaðan líftíma pappírs nútímans.

Í lok dags ferðumst við með lest aftur til höfuðborgarinnar Tashkent þar sem við gistum aftur á Ramada Tashkent.

Dagur 7 | 10. September | Þriðjudagur

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu. Að honum loknum er stefnan á Amirsoy skíðasvæðið í Gora Maygashkan fjalli og Charvak vatnsins. Á leið okkar þangað ferðumst við um sérlega fallega náttúru með einstöku útsýni yfir Ugam-Chatkal þjóðgarðinn. Þegar við komum á áfangastað okkar, Amirsoy, förum við upp á tind með kláf, það ferðalag tekur um ~10 mínútur frá upphafi til enda. Þegar við erum komin upp er frjáls tími þar sem við fáum tækifæri til að ganga um og njóta þessa ótrúlega útsýnis sem fæst í 2.290 metra hæð og taka ljósmyndir til að festa ferðina á filmu.

Eftir þessa heimsókn förum við að Charvak vatni þar sem þeim sem það vilja býðst að kaupa sér bátsferð um vatnið.

Dagurinn endar í Tashkent þar sem við gistum aftur á Ramada Tashkent.

Dagur 8 | 11. September | Miðvikudagur

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu áður en ferðalag dagsins tekur okkur með lest til borgarinnar Almaty í Kasakstan þar sem við komum seint að kvöldi og förum inn á hótelið okkar, Ramada Almaty.

Dagur 9 | 12. September | Fimmtudagur

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu. Við förum í skoðunarferð um Almaty og sjáum helstu kennileiti borgarinnar eins og Panfilovets' Park sem er nefndur í höfuð 28 hermanna sem tilheyrðu herdeild hershöfðingjans Ivan Panfilov - hetjudáðir þessara hermanna og deildar urðu til þess að hægja nóg á sókn þýska hersins að hægt var að styrkja varnir Moskvu. Við heimsækjum einnig Zenkov Cathedral sem er í fyrrnefndum garði og er stórmerkileg sökum þess að hún var byggð án þess að notaðir væru naglar í smíði hennar, að auki er hún talin önnur hæsta kirkja heimsins sem er byggð úr viði.

Memorial of Glory er í sama garði og þar eru mörg minnismerki og minnisvarðar til heiðurs þessum hetjum. Við opnun árið 1975 var tendraður logi nefndur The Eternal Flame - árlega á deginum þegar þessar hetjur unnu þennan sigur er staðinn heiðursvörður um logann og hefð skapast fyrir því að ungmenni borgarinnar heimsæki hann.

Við heimsækjum síðan Medeu dalinn þar sem við skoðum samnefnt skautasvell í 1.691 metra hæð. Stærð svellsins er slík að haldnar eru keppnir á listskautum og í íshokki þar.

Dagurinn endar með heimsókn til Kök Bazaar eða The Green Bazaar markaðsins sem hefur verið mikilvæg miðstöð verslunar frá upphafi hans, árið 1875. Upphaflega var hann aðallega setinn af gestkomandi farandsölumönnum og kaupmönnum en í dag er hann einn vinsælasta aðdráttarafl ferðamanna í borginni líkt og Rahat Chocolate Market sem við munum einnig heimsækja.

Við endum daginn á hótelinu okkar, Grand Mildom Hotel.

Dagur 10 | 13. September | Föstudagur

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu áður en haldið er í spennandi ferðalag til þorps sem er í raun byggðasafn þar sem við lærum um líf og sögu lands og hirðingjamenningarinnar sem er ein af stoðum menningararfleiðar þeirra. Íbúar landsins í dag heiðra forfeður sína, sögu þeirra og hefðir meðal annars með sýningum eins og þessu þorpi.

Grunngildi þjóðarinnar eru meðal annars gestrisni og það er nánast skylda þeirra að taka vel á móti gestum. Í þorpinu fáum við leiðsögn um svæðið, kynningu á tjöldum hirðingja, hestasýningu, lærum um leiki þeirra og njótum þjóðlegs hádegisverðar.

Við endum daginn á að heimsækja hlíðar Kok-Tobe fjallsins og sjáum þar hæsta sjónvarps- eða útsendingarturn heimsins.

Við endum daginn á hótelinu okkar, Grand Mildom Hotel.

Dagur 11 | 14. September | Laugardagur

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu. Fyrsti áfangastaður dagsins er stöðuvatnið Kolsay nærri Almaty - oft talað um það sem blátt hálsmen Tian Shan fjallanna. Fegurð vatnsins er slík að nafnið er svo sannarlega verðskuldað.

Næsti áfangastaður okkar er annað stöðuvatn, Kaiyndy, sem við finnum í fjöllunum í um 2.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Vatnið er um 400 metrar að lengd og nær mest 30 metra dýpi, vatn leyndardóma segja margir heimamenn. Við njótum óviðjafnanlegs útsýnis yfir vatnið, nærliggjandi Saty gljúfrin, Chilik ána og boli trjáa sem liggja niður í dýpi vatnsins.

Dagurinn er tileinkaður ótrúlegri fegurð náttúrunnar sem einkennir Kazakhstan.

Við endum daginn á hótelinu okkar, Grand Mildom Hotel.

Dagur 12 | 15. September | Sunnudagur

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu áður en við förum í ævintýralega ferð þar sem við skoðum dýraverndunarsvæði sem hýsir tegund fálka sem eru í útrýmingarhættu, Sunkar. Þessi starfssemi er sú eina sinnar tegundar í öllu Kazakhstan og hefur frá upphafi komið á legg rétt rúmlega þúsund fuglum, af þeim hefur 260 verið slept út í náttúruna til að styrkja stofninn. Í heimsókn okkar fáum við að sjá þessi tilkomumiklu dýr, læra um þau og venjur þeirra, líffræði og sjáum síðan sýningu þar sem sérhæfðir starfsmenn láta fálkana leika listir sínar fyrir okkur meðan þeir fræða okkur um sögu fálkatemjara.

Við endum daginn á hótelinu okkar, Grand Mildom Hotel.

Dagur 13 | 16. September | Mánudagur

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu. Tamgaly-Tas er hof undir berum himni ef svo má segja. Hér er að finna afskaplega áhugaverðar hella- og veggmyndir af tíbeskum helgimyndum frá fyrri hluta 17. aldar af tíbeskum munkum og Oirat fólkinu í samráði við Galdan Boshugtu Khan sem var þjóðarleiðtogi hirðingja á svæðinu. Galdan var gríðarlega trúaaður maður með víðtæka þekkingu á kenningum Búddisma sem sést skýrt á fyrrnefndum veggmyndum. Eftir að stjórn Dzungar-Khan veldisins endaði fékk hið forna hof nýtt nafn sem það ber enn í dag.

Við endum daginn á heimsókn í þorp hirðingja áður en við snúum aftur til Almaty og hótels okkar þar, Grand Mildom Hotel.

Dagur 14 | 17. September | Þriðjudagur

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu. Við ætlum okkur að heimsækja Issyk stöðuvatnið þennan daginn og þorp sem ber sama nafn. Talið er að vatnið hafi myndast fyrir um 8.000 - 10.000 árum síðan í kjölfar stórkostlegs jarðskjálfta sem braut gífurlegt magn af bergi úr fjallshlíðunum sem liggja við vatnið og myndað náttúrulega stíflu. Vatnið er aðallega þekkt fyrir hvernig það varð til enda 10.000 ár ekki langur tími í þessu samhengi.

Bærinn Issyk eða Esik er staðsettur við rætur Tian Shan fjallgarðsins, upphaflega stofnaður af Kósökkum árið 1858 sem miðstöð allrar stjórnsýslu þeirra á þessu svæði.

Við endum daginn á hótelinu okkar, Grand Mildom Hotel.

Dagur 15 | 18. September | Miðvikudagur

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu áður en ferðalagið heim hefst með lestarferð til borgarinnar Shymkent á landamærum Kazakhstan og Uzbekistan. 

Dagur 16 | 19. September | Fimmtudagur

Við eigum flug til Riga í Lettlandi klukkan 08:30 og áætluð lending þar klukkan 12:00 á staðartíma. Frjáls tími í Riga það sem eftir lifir dags. Riga er meira en 800 ára gömul miðaldaborg sem er mikið augnayndi hvert sem litið er og gamli borgarhlutinn er á heimsminjaskrá UNESCO. Auðvelt er fyrir gangandi vegfarendur að komast leiðar sinnar í gamla hluta Riga eftir steinilögðum strætum þar sem sagan liggur í loftinu. Víðsvegar um gamla bæinn má finna falleg torg sem hýsa bjórgarða, veitingastaði og kaffihús þar sem er tilvalið að setjast niður og gera vel við sig í mat og drykk. Hótelið er á besta stað, mjög miðsvæðis og nánast hægt að ganga hvert sem er.

Við gistum á Tallink Hotel Riga.

Dagur 17 | 20. September | Föstudagur

Heimferðardagur - við eigum flug klukkan 10:45 heim til Keflavíkur. Við lendum í Keflavík klukkan 11:45 á íslenskum tíma.